Lokatölur í Reykjavík voru tilkynntar klukkan 04:35 svo partýin fengu að lifa lengi. Meirihlutinn féll og Framsóknarflokkurinn komst í lykilstöðu eftir að hafa bætt við sig fjórum borgarfulltrúum en 61,1% kjörsókn var meðal Íslendinga.
Framsóknarflokkurinn fagnaði kvöldinu í Hafnarþorpinu sem er einnig þekkt sem Kolaportið. Mikil gleði einkenndi kvöldið. „Krakkar, við erum að ná ótrúlegum árangri í Reykjavík,“ sagði Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar í Reykjavík í ræðu sinni til viðstaddra eftir að fyrstu tölur bárust.
Samfylkingin kom saman að fylgjast með kosningunum í Iðnó en þar var margt um manninn og mikil gleði. „Við erum að sjá að þær áherslur sem við höfum lagt á græna umbreytingu borgarinnar eru að fá langt yfir 60% fylgi í þessum kosningum,“ sagði Dagur þegar fyrstu tölur bárust og virtist ánægður með þá þróun mála.
Sjálfstæðisflokkurinn fylgdist grant með gangi mála á Hilton Nordica og virtust allir njóta kvöldsins vel. „Meirihlutinn í Reykjavík er fallinn. Og það sem meira er, Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkurinn í Reykjavík,“ sagði Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, eftir að fyrstu tölur voru kynntar og uppskar mikil fagnaðarlæti.