Darren vinnur í mörgum listrænum miðlum en fæst aðallega við fatahönnun og teikningu. Ásamt hefðbundnari aðferðum við að búa til fatnað fæst hann líka við að taka í sundur flíkur og nýta efnin áfram í að skapa nýjar flíkur. Hann hefur sýnt á ýmsum sýningum víða um heiminn og tilheyrir einnig listamannahópnum Lucky 3, sem unnu hvatningarverðlaun Íslensku myndlistarverðlaunanna fyrr í ár.

Hvernig hefur ferlið gengið við að hanna Eurovision búninga?
Það fór frekar fljótt fram. Öll hönnunin, sniðaferlið og saumaskapurinn fór fram á innan við mánuði sem er í raun mjög stuttur tímarammi og mikil pressa í lokin.
Ertu aðdáandi Eurovision?
To be honest, nei, ég get ekki sagt að ég sé mesti aðdáandi eurovision. Ég fylgdist með keppninni mest sem krakki með fjölskyldunni en datt síðan út úr því með tímanum.
Hvaðan sækirðu innblástur í hönnun þína?
Innblástur getur komið frá hverju sem er og fer oft eftir því hvernig verkefni það er. Í þetta skiptið var ákveðið að halda í sama eða svipaðan anda og fyrri fatnaðinn sem þær voru í en fríska aðeins upp á það með öðrum elementum sem koma til dæmis frá 70’s tísku og öðrum þáttum frá minni eigin hönnun sem ég hef áður unnið með.
Er öðruvísi að vinna að hönnun með tónlistarfólki en á öðrum sviðum?
Í raun er það meira persónubundið frekar en að það fari eftir á hvaða sviði fólk er að vinna en sameiginlegi þátturinn er að finna milliveg hjá hönnuði og kúnna.
Annað sem þú vilt taka fram?
Áfram Systur!!
Sylvía Rut Sigfúsdóttir og Dóra Júlía Agnarsdóttir eru fulltrúar fréttastofunnar á Eurovision í Tórínó á Ítalíu. Munu þær birta fréttir, viðtöl, hlaðvörp og auðvitað líka reglulega þætti af Júrógarðinum.
Alla umfjöllun okkar um Eurovision keppnina má finna HÉR á Lífinu á Vísi.