ÁTVR hefur einkaleyfi til smásölu á áfengi hér á landi, auk handhafa vínveitingaleyfis. Að undanförnu hafa hins vegar ýmsar vefverslanir með áfengi sprottið upp, í óþökk ÁTVR sem hefur reynt að sporna gegn þessari þróun, án árangurs hingað til.
Þá hefur verslun 10-11 í komusalnum í Leifsstöð fengið áfengissöluleyfi. Verslunin selur belgíska bjórinn Stella Artois. Í Bítinu á Bylgjunni í gær var svo rætt við Hjörvar Gunnarsson, einn af eigendum Acan.is, sem sagði það í raun vera lítið mál að stofna vefverslun með áfengi hér á landi.
Jón Gunnarson dómsmálaráðherra var svo til svara í Bítinu í morgun, þar sem hann var meðal annar spurður út í fyrirkomulag áfengissölu á Íslandi, í ljósi þessara vendinga.
Verslun og þjónusta að breytast
„Þetta sýnir okkur í hversu miklar ógöngur við erum komin í í þessum málum og þá umgjörð sem um þetta gildir. Við höfum ekki breytt lögum um áfengissölu hér í áratugi. Þetta eru mjög gömul lög sem allt okkar kerfi byggir á í þessu,“ sagði Jón.
Fyrirkomulag verslunar og þjónustu væri að breytast og löggjöfin þyrfti að fylgja með.
„Við getum öll horft í eigin barm og séð hvernig aðstæður í allri verslun og þjónustu hafa breyst á undanförnum árum, auðvitað löngu tímabært að við sláum nýjum takt í sölu á þessum vörum eins og öðrum,“ sagði Jón.
Í þættinum minntist Jón á að einkasala ríkisins á áfengi hafi á sínum tíma verið byggð á lýðheilsusjónarmiðum, þar sem hugað var að því að tempra aðgengi að áfengi.
„Við getum svo velt því fyrir okkur hvort við höfum verið að fylgja því í hvívetna þar sem að við erum stöðugt að fjölga útsölustöðum Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins,“ sagði Jón.
Verið væri að skoða þessi mál í ráðuneytinu.
„Ég hef verið að láta skoða þetta í ráðuneytinu á hvaða grunni við byggjum þessar reglur okkar og hvort við séum reyndar komin út fyrir þann ramma og þær reglur sem lágu grundvallar að fá þetta einkasöluleyfi á sínum tíma.“