Innlent

Mosfellsbær þarf að greiða fatlaðri manneskju miskabætur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mosfellsbær er ekki skaðabótaskyldur í málinu en þarf að greiða miskabætur.
Mosfellsbær er ekki skaðabótaskyldur í málinu en þarf að greiða miskabætur. Vísir/Vilhelm

Mosfellsbær þarf að greiða fatlaðri manneskju í sveitarfélaginu 700 þúsund krónur í miskabætur.

Þetta er niðurstaða Hæstaréttar sem sagði afar takmarkaðar skýringar hafa komið fram frá Mosfellsbæ um tafir við meðferð og vinnslu umsóknar manneskjunnar um notendastýrða persónulega aðstoð. 

Viðkomandi sótti um aðstoðina í október 2018 en þjónusta hófst ekki fyrr en í febrúar 2021. Hæstiréttur viðurkenndi ekki skaðabótaskyldu til mannsins vegna málsins.

Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, stjórnarmaður hjá Öryrkjabandalagi Íslands og formaður NPA miðstöðvarinnar, segir í færslu um málið á Facebook ekki á hverjum degi sem fatlað fólk nær að sækja rétt sinn fyrir dómstólum á Íslandi.

„Þvert á móti er það frávik. Í dag snéri þó Hæstiréttur við mannfjandsamlegum dómi Landsréttar í sama máli og í því felst von. Þó dómurinn taki ekki á öllum þeim fjölmörgu álitaefnum sem lögð voru fyrir hann markar hann þáttaskil þar sem hann kveður á um að sveitarfélagið sem um ræðir hafi ekki sinnt réttilega skyldum sínum til að veita NPA þjónustu,“ segir Rúnar.

„Of lengi hafa sveitarfélög talið sig geta tekið umsóknir um NPA, sett þær ofan í skúffu og afgreitt eftir geðþótta. Of lengi hafa sveitarfélög talið sig geta geta beðið í mánuði og ár eftir fjármagni, bæði frá ríkinu en líka frá sveitarfélögunum sjálfum.“

Vonandi marki dómurinn þáttaskil því í honum felist skýr áfellisdómur um það hvernig sveitarfélög hafi vanrækt skyldur sínar við meðferð á réttindum einstaklinga til NPA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×