Fyrr í vikunni bárust fréttir þess efnis að ítalski umboðsmaðurinn væri látinn. Ekki reyndust þær á rökum reistar á þeim tíma. Umboðsmaðurinn hafði verið heilsuveill en í upphafi ársins var hann fluttur á gjörgæslu í Mílanó og fór í aðgerð. Hann var á téðu sjúkrahúsi er greint var frá andláti hans fyrr í vikunni.
Nú hefur fjölskylda Raiola tilkynnt að Raiola sé látinn. Hann var 54 ára.
„Það er með ólýsanlegri sorg sem við deilum því að magnaðasti umboðsmaður allra tíma er látinn. Mino barðist allt til enda með sama styrk og hann barðist fyrir leikmenn sína. Að venju gerði Mino okkur stolt án þess að vita af því,“ segir í yfirlýsingunni.
„Mino snerti líf margra með vinnu sinni og skrifaði nýjan kafla í nútímafótbolta. Nærveru hans verður ávallt saknað. Markmið Mino var að gera fótbolta að betri stað fyrir leikmenn og munum við halda því áfram.“
„Við þökkum öllum sem hafa sent stuðning á þessum erfiðum tímum og biðjum um frið fyrir fjölskyldumeðlimi og vini svo þau geti fengið að syrgja í friði. Raiola fjölskyldan,“ segir að endingu.
— Mino Raiola (@MinoRaiola) April 30, 2022
Raiola var einn þekktasti umboðsmaður heims og með fjölmargar stórstjörnur á sínum snærum. Þar má nefna leikmenn á borð við Zlatan Ibrahimovic, Paul Pogba og Erling Håland.