Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sólveigu Önnu sem barst fjölmiðlum eftir að niðurstöður félagsfundar Eflingar sem haldinn var í kvöld urðu ljósar.
Tillaga um að draga til baka umdeildar hópuppsagnir á skrifstofu Eflingar var felld með 152 atkvæðum gegn 106.
„Félagsfólk Eflingar varði stjórn félagsins gegn tilraun starfsfólks skrifstofu Eflingar og stuðningsmanna A-listans sem tapaði í nýliðnum kosningum til að afturkalla ákvörðun um skipulagsbreytingar. Var þetta niðurstaðan á félagsfundi í kvöld, segir um þetta í tilkynningu Sólveigar Önnu sem send var undir titlinum „Eflingarfélagar vörðu stjórn gegn atlögu á félagsfundi“.
„Tillögu um afturköllun skipulagsbreytinga sem nú standa yfir á skrifstofum félagsins var hafnað í atkvæðagreiðslu með afgerandi meirihluta, að loknum umræðum þar sem fjölmargir tóku til máls. Skipulagsbreytingarnar munu halda áfram samkvæmt áætlun og umboð stjórnar til að fylgja þeim eftir er óskorað, segir enn fremur.“
Eins og kom fram á Vísi í kvöld hvatti Sólveig Anna félagsmenn til að sýna samstöðu, auk þess sem að hún gagnrýndi þá félagsmenn sem hafa gagnrýnt hópuppsagnirnar að undanförnu.
„Félagsfólk hefur sýnt að það stendur með rétti sínum til að reka félagið eins og það kýs. Félagsfólk hefur tekið ákvörðun um að setja sína hagsmuni í fyrsta sæti, ekki hagsmuni annarra,“ er haft eftir Sólveigu Önnu í tilkynningunni.