Þór/KA missti fyrir tímabilið fyrirliðann og miðvörðinn Örnu Sif Ásgrímsdóttur til Vals. Arna Sif hóf tímabilið í gær með því að skora fyrra mark Vals í sigri á Þrótti.
Arna Sif er leikjahæsti leikmaður Þór/KA í efstu deild og missirinn því mikill. Þór/KA fær nú nöfnu gamla fyrirliðans til staðinn og það sem meira er að þær spila sömu stöðu.
Arna Eiríksdóttir verður tvítug á árinu og á að baki nokkur ár í meistaraflokki. Hún var í Víkingi í Reykjavík í yngri flokkum, spilaði síðan með meistaraflokksliði HK/Víkings í úrvalsdeildinni 2018 og 2019, en síðan með Val frá 2020.
Arna skoraði eitt mark í ellefu leikjum þegar Valskonur tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrrasumar. Hún hefur skorað 5 mörk í 38 leikjum í efstu deild.
„Arna er sterkur leikmaður og spilar sem miðvörður, en hún kemur inn í hópinn hjá Þór/KA í stað Brooke Lampe, bandaríska miðvarðarins sem félagið samdi við um áramótin. Brooke hefur því miður þurft frá að hverfa af persónulegum ástæðum og var samningi hennar slitið að hennar ósk,“ segir í frétt á heimasíðu Þór/KA.