Margir hafa gagnrýnt ákvörðun Nadim í ljósi þess við hvaða aðstæður verkafólk hefur búið við í Katar, í uppbyggingu fyrir HM, og vegna þess hvernig mannréttindi eru fótum troðin í landinu þar sem til að mynda er ólöglegt að vera samkynhneigður.
Flóttamannaaðstoð Danmerkur tilkynnti til dæmis í síðustu viku að samstarfi við Nadim hefði verið slitið vegna starfa hennar fyrir HM í Katar. Nadim, sem sjálf kom sem flóttamaður til Danmerkur frá Afganistan, var áður erindreki Flóttamannaaðstoðarinnar.
Þá hafa dönsku leikmannasamtökin harmað ákvörðun hinnar 34 ára gömlu Nadim, sem í dag er leikmaður Racing Louisville í Bandaríkjunum og á að baki 99 A-landsleiki fyrir Danmörku.
Danski miðillinn Ekstra Bladet fjallar um það í dag að Nadim fái svo sannarlega greitt fyrir störf sín í þágu HM í Katar. Það hafi sannast í nýrri Instagram-færslu hennar þar sem standi að um „kostað samstarf“ sé að ræða.
Ekstra Bladet hefur ítrekað reynt að fá svör frá Nadim um það af hverju hún kjósi að auglýsa HM í Katar, og hvað hún fái nákvæmlega greitt fyrir það, en ekki fengið nein svör.