Samkvæmt upplýsingum frá Brunavörnum Suðurnesja er talið að um þriggja bíla árekstur hafi verið að ræða. Fyrst hafi orðið árekstur tveggja fólksbíla og í framhaldinu hafi vöruflutningabíl verið ekið aftan á fólksbílana.
Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir í samtali við Vísi að þyrla Gæslunnar hafi verið á æfingu þegar slysið varð. Var ákveðið að fljúga með lækni sem var um borð á vettvang slyssins. Var hann skilinn þar eftir.
Þrír sjúkrabílar frá Brunavörnum Suðurnesja voru sendir á staðinn auk tækjabíls slökkviliðsins.
Upplýsingar um líðan fólks liggja ekki fyrir. Samkvæmt heimildum fréttastofu var mikill fjöldi lögreglubíla á svæðinu um hálf fjögur leytið.
Í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurnesjum á fimmta tímanum segir að tilkynning um slysið hafi borist klukkan 14:30. Fjölmennt lið viðbragðsaðila hafi farið á vettvang og einn fluttur slasaður af vettvangi. Frekari upplýsingar sé ekki hægt að veita.
Fréttin var síðast uppfærð klukkan 16:25.