Þetta segir Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, í samtali við Innherja en tilefnið eru ummæli Ásgeirs á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í síðustu viku. Þar kom fram í máli seðlabankastjóra að það væri „engin launung á því að ég hefði helst viljað að lífeyrissjóðirnir væru ekki beinir þátttakendur á lánamarkaðinum eins og þeir eru í dag.“
Ásgeir sagðist á fundinum hafa áhyggjur af því að hækkandi vextir og nýjar reglur um hámark greiðslubyrðar geti valdið því að heimilin færi sig aftur yfir í verðtryggð lán, á sama tíma og Seðlabankinn væri í raun að hafa hemil á þeim, og að lífeyrissjóðir verði á ný atkvæðamiklir á lánamarkaði. Bætti hann við að lífeyrissjóðirnir hefði yfirburði í því að fjármagna verðtryggð lán sökum þess að skuldir þeirra væru verðtryggðar á móti.
„Ég hlustaði í tvígang á Ásgeirs lýsa sinni persónulegu skoðun að hann vildi helst að lífeyrissjóðirnir væru ekki með beinum hætti þátttakendur á lánamarkaði eins og þeir eru núna. Kannski hefur orðavalið „eins og þeir eru núna“ merkingu en ég skil þetta sem svo að hann vilji lífeyrissjóði af íbúðalánamarkaði. Hann sagði reyndar að sú skoðun væri „engin launung“ og hef ég þá bara ekki fylgst nógu vel með,“ segir Ólafur við Innherja.
Að sögn framkvæmdastjóra Birtu, sem er fjórði stærsti lífeyrissjóður landsins, er seðlabankastjóri með þessu að taka undir málflutning meðal annars Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, svo „ekki sé minnst á nokkur álit Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) sama efnis að gott væri að losna við lífeyrissjóði af íbúðalánamarkaði. Lánastarfsemi lífeyrissjóða hefur verið fundið margt til foráttu í gegnum tíðina og það eru vonbrigði ef Ásgeir er genginn til liðs við SFF í þessu máli,“ að sögn Ólafs.
Það kunna að vera kostir og gallar við þátttöku lífeyrissjóða á lánamarkaði en það eru ákveðin vonbrigði að Ásgeir taki undir þann málflutning sem getur leitt til þess að þátttakendum á samkeppnismarkaði fækki verulega.
Þar vísar Ólafur til viðtals við Lilju sem birtist í Markaðinum í Fréttablaðinu í byrjun síðasta árs þar sem hún sagðist telja að bankarnir yrðu áfram ráðandi í húsnæðislánum meðan vaxtastigið væri lágt, og bætti við: „Að mínu mati er eðlilegra að þátttaka lífeyrissjóða, sem eru ekki með sömu lagaumgjörð og bankar, felist í því að fjárfesta í sértryggðum skuldabréfum sem fjármagnar lánveitingar bankanna, frekar en að veita húsnæðislán til heimila með beinum hætti.“
Útlánatölur bankanna sýna að heimilin greiddu upp óverðtryggð íbúðalán á breytilegum vöxtum fyrir meira en 1.230 milljónir króna í síðasta mánuði. Það hefur ekki gerst frá því í árslok 2016 að uppgreiðslur á slíkum íbúðalánum séu meiri en sem nemur nýjum lánveitingum innan eins mánaðar.
Á sama tíma og ásókn heimilanna í óverðtryggð lán á breytilegum kjörum er hverfandi þá hafa þau í vaxandi mælið verið að taka slík lán á föstum vöxtum. Í febrúar námu lán bankanna með veði í íbúð samtals tæplega 13 milljörðum króna og jukust um nærri 50 prósent frá fyrri mánuði.
Þrátt fyrir að lífeyrissjóðirnir séu farnir að gera sig gildandi á nýjan leik á íbúðalánamarkaði þá er lánavöxturinn enn margfalt meiri hjá bönkunum enda þótt hægt hafi á honum síðustu mánuði. Í lok febrúar stóðu heildarútlán bankanna með veði íbúð í tæplega 1.600 milljörðum króna en hjá lífeyrissjóðum eru húsnæðislánin samtals um 490 milljarðar.
Frá því í mars 2016 og þar til kórónuveirufaraldurinn skall á hér á landi í lok mars 2020 voru lífeyrissjóðirnir mjög umsvifamiklir í veitingu nýrra húsnæðislána og með álíka hlutdeild í veitingu nýrra lána og bankarnir.
Hrein ný útlán lífeyrissjóðanna á því þriggja ára tímabili námu samtals 386 milljörðum króna. Má segja að í hverjum mánuði hafi hrein útlán frá lífeyrissjóðunum til íbúðakaupenda numið um það bil 5-10 milljörðum króna.
Á örskömmum tíma breyttist umhverfið. Frá því í júní 2020 og til október 2021 voru hrein ný útlán sjóðanna, þ.e. ný útlán að frádregnum uppgreiðslum, neikvæð í hverjum einasta mánuði. En eftir samfelldar uppgreiðslur í nær eitt og hálft ár hafa hrein ný útlán verið jákvæð um 1,5 til 2 milljarða frá því í nóvember.
Heimilin hafa í vaxandi mælið sagt skilið við að taka lán til fasteignakaupa á breytilegum vöxtum samtímis aukinni verðbólgu og væntingum um enn frekari vaxtahækkanir Seðlabankans. Frá því um mitt síðasta ár hefur þannig verið lítil aukning í veitingu nýrra íbúðalána bankanna á breytilegum vöxtum á meðan slík lán á föstum vöxtum hafa vaxið um meira en 100 milljarða króna yfir sama tímabil.