Það eina sem blasti við áhorfendum beins streymis af hinni meintu afhjúpun á Vísi morgun var torkennilegur hlutur fyrir utan Björgunarmiðstöðina í Skógarhlíð, sveipaður svartri ábreiðu. Undir ábreiðunni reyndist alls ekki stytta af Ölmu Möller landlækni, Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni og Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni - heldur var þar að finna þrjár gínur.

Og gínurnar létu illa að stjórn. Umsjónarmenn aprílgabbs fréttastofu áttu fullt í fangi með að stilla þeim upp á hnúðóttum grasblettinum við Björgunarmiðstöðina í morgun. Þung ábreiðan gerði gínurnar svo enn valtari en ella. Og rétt fyrir útsendingu gerðist það; þríeykið riðaði til falls og lenti með skelli í jörðinni, umsjónarmönnum til mikillar skelfingar.
Hér fyrir neðan má sjá fall þríeykisins og skjót viðbrögð umsjónarmanna, sem reistu þremenningana við hið snarasta.
Hér má svo sjá útsendingu Vísis frá því í morgun.