Umfjöllun og viðtöl: Grindavík – Þór Þorlákshöfn 93-105 | Öruggur sigur Þórsara í upphitun liðanna fyrir úrslitakeppni Smári Jökull Jónsson skrifar 31. mars 2022 21:34 Stuðningsfólk Þórs Þorlákshafnar vonast til að fagna deildarmeistaratitli í kvöld. Vísir/Hulda Margrét Þór frá Þorlákshöfn vann nokkuð þægilegan sigur á Grindavík í lokaumferð Subway-deildarinnar í kvöld. Liðin mætast í einvígi í 8-liða úrslitum sem hefst í næstu viku. Grindavík var án þeirra EC Matthews og Ivan Aurrecoechea en báðir eiga við meiðsli að stríða. Þórsarar áttu möguleika á deildarmeistaratitlinum með sigri en þurftu að treysta á tap Njarðvíkur gegn Keflavík. Leikurinn í kvöld var jafn til að byrja með. Ólafur Ólafsson og Davíð Arnar Ágústsson byrjuðu af gríðarlegum krafti og settu niður þrista eins og enginn væri morgundagurinn. Í öðrum leikhluta náðu Þórsarar síðan því forskoti sem þeir létu aldrei af hendi eftir það. Þeir hittu ótrúlega og skoruðu alls 37 stig í leikhlutanum. Staðan í hálfleik 61-42 og gestirnir búnir að hitta úr þrettán af tuttugu og einu þriggja stiga skoti. Í síðari hálfleik var leikurinn í meira jafnvægi. Grindvíkingar náðu muninum niður í tíu stig og unnu báða leikhlutana í síðari hálfleik. Það dugði þó ekki til og Þórsarar unnu nokkuð þægilegan sigur. Lokatölur 105-93 og Þórsarar lenda því í 2.sæti deildarinnar og Grindavík í 7.sætinu. Liðin munu því mætast í 8-liða úrslitunum sem hefjast í næstu viku. Af hverju vann Þór? Þeir hittu ofboðslega vel og náðu frábæru áhlaupi í öðrum leikhluta þar sem Grindvíkingar réðu ekki við þá. Heimamenn léku án EC Matthews og Ivan Aurrecoechea og því ljóst fyrir leikinn að róðurinn yrði þungur. Ólafur Ólafsson og Kristinn Pálsson báru hitann og þungann í sóknarleik Grindavíkur og þrátt fyrir ágætis framlag frá öðrum þá voru Þórsarar einfaldlega of sterkir í dag. Þeir fengu framlag frá fleiri leikmönnum og höfðu fleiri vopn í sínu vopnabúri þegar á reyndi. Þessir stóðu upp úr: Ólafur Ólafsson var frábær hjá Grindavík og svaraði fyrir slakan leik gegn Keflavík í síðustu umferð. Kristinn Pálsson átti fínan leik og Björgvin Hafþór Ríkharðsson ágæta spretti. Davíð Arnar Ágústsson var mjög góður hjá gestunum í kvöld og þeir Ronaldas Rutkauskas, Daniel Mortensen og Glynn Watson komu allir með gott framlag. Hvað gekk illa? Það sem gekk illa fyrir Grindavík var að Þórsarar hittu alltof vel fyrir utan þriggja stiga línuna. Nýtingin í þriggja stiga skotum hjá gestunum var 64% í kvöld og þó svo að Grindvíkingar hafi oft á tíðum gefið þeim opin skot þá er þessi nýting ótrúleg. Hvað gerist næst? Deildarkeppnin hefur runnið sitt skeið og framundan skemmtilegasti tími ársins í körfuboltanum, sjálf úrslitakeppnin. Grindavík og Þór mætast þar í 8-liða úrslitum og það verður áhugaverð viðureign. Þórsarar hafa verið sterkir í vetur en Grindvíkingar eru svo sannarlega ekki auðveld hindrun fyrir Íslandsmeistarana. Það er þó algjört lykilatriði fyrir Suðurnesjamenn að þeir EC Matthews og Ivan Aurrecoechea verði heilir heilsu í einvíginu. Lárus: Þurfum að horfa á stóru myndina Lárus Jónsson er þjálfari Þórs frá Þorlákshöfn sem hafa titil að verja í úrslitakeppninni sem framundan er.Vísir/Bára Dröfn Lárus Jónsson sagði lítið að marka úrslitin í leiknum gegn Grindavík í kvöld enda heimaliðið án tveggja sterkra leikmanna. Hann sagði Þórsara ekki geta verið alltof ósátta þó deildarmeistaratitillinn hafi runnið úr þeirra greipum. „Við komum inn í leikinn til að vinna og það var miklu meira undir í leiknum fyrir okkur en Grindavík. Það skekkir myndina gríðarlega að þeir séu ekki með þessa tvo leikmenn, þeir hjálpa mikið inni í teig og við fengum mikið af opnum skotum. Það er lítið að marka þessi úrslit myndi ég segja,“ sagði Lárus í samtali við Vísi að leik loknum í kvöld. Grindavík lék án þeirra EC Matthews og Ivan Aurrecoechea sem eru tveir af þeirra sterkustu mönnum. Báðir eiga við meiðsli að stríða en vonir standa þó til að þeir verði með í 8-liða úrslitunum sem hefjast í næstu viku. „Við hittum vel og heilt yfir er ég ágætlega sáttur, við gerum einhver mistök í vörninni sem við lögum. Þetta var ekki fullkominn leikur, svolítið af aulalegum töpuðum boltum sem við þurfum að laga,“ bætti Lárus við og viðurkenndi að tapið gegn Tindastól í síðustu umferð sviði en með sigri þar hefði deildarmeistaratitillinn verið í seilingarfjarlægð. „Við verðum að reyna að horfa á stóru myndina, við erum með níu sigra og tvo tapleiki eftir áramót og töpum fimm leikjum í heildina. Njarðvík og við erum búin að vera jöfnustu liðin í vetur þannig að við getum ekkert verið neitt rosalega ósáttir.“ Framundan eru 8-liða úrslitin og þar mæta Þórsarar einmitt Grindvíkingum. Lárus á von á því að þeir EC Matthews og Ivan Aurrecochea verði mættir til leiks í næstu viku. „Klárlega, ef þessi leikur hefði skipt máli þá held ég að þessir tveir hestar hefðu spilað. Hún leggst ágætlega í mig þessi rimma, við höfum skipt leikjunum í vetur. Þeir eru aðeins öðruvísi núna en þegar við spiluðum við þá fyrst, EC er aðalmaðurinn þeirra og ég hlakka bara til.“ Hann sagði að Þórsarar yrðu að vera klárir í að mæta orkumiklum Grindvíkingum í rimmunni sem hefst í næstu viku. „Við þurfum að stoppa Ivan undir körfunni og reyna að hemja EC einn á einn. Þeir eru með frábærar skyttur í Ólafi og Kristni. Við þurfum að jafna orkustigið þeirra. Óli og Kiddi geta verið ansi graðir á hringinn. Við þurfum að vera duglegir að stíga út og vera fastir fyrir.“ Sverrir Þór: Þeir verða í búning Sverrir Þór Sverrisson var ánægður með baráttu sinna manna í kvöld.Vísir/Vilhelm „Ég er heilt yfir sáttur með baráttuna hjá mínum mönnum. Það voru jákvæðir kaflar í leiknum en það er rosalega erfitt að gera eitthvað gegn liði sem er að skjóta boltanum 65%. Auðvitað eru þeir góðir að opna varnirnar þar sem þú setur engan einn gegn Glynn Watson sem dregur menn í sig,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Grindavíkur eftir tapið gegn Þór frá Þorlákshöfn í kvöld. „Þeir eru frábærir í að finna aukasendingar og fá besta skotið. Ég man ekki eftir 66% þriggja stiga skotnýtingu hjá liði sem er að skjóta mjög mikið. Þetta var alveg ótrúlegt og maður var farinn að hrista hausinn þegar hvert skotið fór niður, sama hvort við náðum að trufla þá og það virtist engu skipta.“ Grindavík var nítján stigum undir í hálfleik en unnu bæði þriðja og fjórða leikhluta sem gefur þeim eflaust smá hughreystingu eftir tapið og fyrir einvígi liðanna í 8-liða úrslitum. „Við komum hér og það vantar tvo sterka menn, þar af leiðandi eru aðrir leikmenn að byrja inn og aðrir að koma fyrr inn. Strákar að spila sem hafa ekkert spilað í vetur og það er það jákvæða.“ „Mér fannst menn leggja sig ágætlega fram en við vorum að spila við sterkt lið sem við erum að fara að mæta í úrslitakeppninni og við þurfum að vera með okkar sterkasta lið til að eiga möguleika gegn þeim í úrslitakeppninni. Nú er bara að ná mönnum heilum fyrir það og mæta grimmir. Við eigum eftir að fara yfir fullt af hlutum og þurfum að finna leiðir svo þeir setji ekki upp svona sýningu á móti okkur,“ bætti Sverrir Þór við. Hann bjóst við að EC Matthews og Ivan Aurrecoechea, sem voru frá vegna meiðsla í kvöld, verði klárir í slaginn gegn Þór í 8-liða úrslitunum. „Þeir verða bara í búning, ég segi það bara hér. Vonandi verða þeir orðnir það frískir að þeir geti verið á fullu gasi með okkur. Það er planið þangað til annað kemur í ljós.“ Leikir liðanna hafa oft verið kallaðir baráttan um Suðurstrandarveginn og Sverrir átti von á skemmtilegri rimmu og góðum stuðningi Grindvíkinga. „Það hefur alltaf verið mikil stemmning í Grindvíkingum þegar kemur að úrslitakeppninni og þeir hafa oft fengið að upplifa skemmtilega tíma. Vonandi verður það raunin hjá okkur í ár.“ Körfubolti Íslenski körfuboltinn Subway-deild karla Grindavík UMF Grindavík Þór Þorlákshöfn
Þór frá Þorlákshöfn vann nokkuð þægilegan sigur á Grindavík í lokaumferð Subway-deildarinnar í kvöld. Liðin mætast í einvígi í 8-liða úrslitum sem hefst í næstu viku. Grindavík var án þeirra EC Matthews og Ivan Aurrecoechea en báðir eiga við meiðsli að stríða. Þórsarar áttu möguleika á deildarmeistaratitlinum með sigri en þurftu að treysta á tap Njarðvíkur gegn Keflavík. Leikurinn í kvöld var jafn til að byrja með. Ólafur Ólafsson og Davíð Arnar Ágústsson byrjuðu af gríðarlegum krafti og settu niður þrista eins og enginn væri morgundagurinn. Í öðrum leikhluta náðu Þórsarar síðan því forskoti sem þeir létu aldrei af hendi eftir það. Þeir hittu ótrúlega og skoruðu alls 37 stig í leikhlutanum. Staðan í hálfleik 61-42 og gestirnir búnir að hitta úr þrettán af tuttugu og einu þriggja stiga skoti. Í síðari hálfleik var leikurinn í meira jafnvægi. Grindvíkingar náðu muninum niður í tíu stig og unnu báða leikhlutana í síðari hálfleik. Það dugði þó ekki til og Þórsarar unnu nokkuð þægilegan sigur. Lokatölur 105-93 og Þórsarar lenda því í 2.sæti deildarinnar og Grindavík í 7.sætinu. Liðin munu því mætast í 8-liða úrslitunum sem hefjast í næstu viku. Af hverju vann Þór? Þeir hittu ofboðslega vel og náðu frábæru áhlaupi í öðrum leikhluta þar sem Grindvíkingar réðu ekki við þá. Heimamenn léku án EC Matthews og Ivan Aurrecoechea og því ljóst fyrir leikinn að róðurinn yrði þungur. Ólafur Ólafsson og Kristinn Pálsson báru hitann og þungann í sóknarleik Grindavíkur og þrátt fyrir ágætis framlag frá öðrum þá voru Þórsarar einfaldlega of sterkir í dag. Þeir fengu framlag frá fleiri leikmönnum og höfðu fleiri vopn í sínu vopnabúri þegar á reyndi. Þessir stóðu upp úr: Ólafur Ólafsson var frábær hjá Grindavík og svaraði fyrir slakan leik gegn Keflavík í síðustu umferð. Kristinn Pálsson átti fínan leik og Björgvin Hafþór Ríkharðsson ágæta spretti. Davíð Arnar Ágústsson var mjög góður hjá gestunum í kvöld og þeir Ronaldas Rutkauskas, Daniel Mortensen og Glynn Watson komu allir með gott framlag. Hvað gekk illa? Það sem gekk illa fyrir Grindavík var að Þórsarar hittu alltof vel fyrir utan þriggja stiga línuna. Nýtingin í þriggja stiga skotum hjá gestunum var 64% í kvöld og þó svo að Grindvíkingar hafi oft á tíðum gefið þeim opin skot þá er þessi nýting ótrúleg. Hvað gerist næst? Deildarkeppnin hefur runnið sitt skeið og framundan skemmtilegasti tími ársins í körfuboltanum, sjálf úrslitakeppnin. Grindavík og Þór mætast þar í 8-liða úrslitum og það verður áhugaverð viðureign. Þórsarar hafa verið sterkir í vetur en Grindvíkingar eru svo sannarlega ekki auðveld hindrun fyrir Íslandsmeistarana. Það er þó algjört lykilatriði fyrir Suðurnesjamenn að þeir EC Matthews og Ivan Aurrecoechea verði heilir heilsu í einvíginu. Lárus: Þurfum að horfa á stóru myndina Lárus Jónsson er þjálfari Þórs frá Þorlákshöfn sem hafa titil að verja í úrslitakeppninni sem framundan er.Vísir/Bára Dröfn Lárus Jónsson sagði lítið að marka úrslitin í leiknum gegn Grindavík í kvöld enda heimaliðið án tveggja sterkra leikmanna. Hann sagði Þórsara ekki geta verið alltof ósátta þó deildarmeistaratitillinn hafi runnið úr þeirra greipum. „Við komum inn í leikinn til að vinna og það var miklu meira undir í leiknum fyrir okkur en Grindavík. Það skekkir myndina gríðarlega að þeir séu ekki með þessa tvo leikmenn, þeir hjálpa mikið inni í teig og við fengum mikið af opnum skotum. Það er lítið að marka þessi úrslit myndi ég segja,“ sagði Lárus í samtali við Vísi að leik loknum í kvöld. Grindavík lék án þeirra EC Matthews og Ivan Aurrecoechea sem eru tveir af þeirra sterkustu mönnum. Báðir eiga við meiðsli að stríða en vonir standa þó til að þeir verði með í 8-liða úrslitunum sem hefjast í næstu viku. „Við hittum vel og heilt yfir er ég ágætlega sáttur, við gerum einhver mistök í vörninni sem við lögum. Þetta var ekki fullkominn leikur, svolítið af aulalegum töpuðum boltum sem við þurfum að laga,“ bætti Lárus við og viðurkenndi að tapið gegn Tindastól í síðustu umferð sviði en með sigri þar hefði deildarmeistaratitillinn verið í seilingarfjarlægð. „Við verðum að reyna að horfa á stóru myndina, við erum með níu sigra og tvo tapleiki eftir áramót og töpum fimm leikjum í heildina. Njarðvík og við erum búin að vera jöfnustu liðin í vetur þannig að við getum ekkert verið neitt rosalega ósáttir.“ Framundan eru 8-liða úrslitin og þar mæta Þórsarar einmitt Grindvíkingum. Lárus á von á því að þeir EC Matthews og Ivan Aurrecochea verði mættir til leiks í næstu viku. „Klárlega, ef þessi leikur hefði skipt máli þá held ég að þessir tveir hestar hefðu spilað. Hún leggst ágætlega í mig þessi rimma, við höfum skipt leikjunum í vetur. Þeir eru aðeins öðruvísi núna en þegar við spiluðum við þá fyrst, EC er aðalmaðurinn þeirra og ég hlakka bara til.“ Hann sagði að Þórsarar yrðu að vera klárir í að mæta orkumiklum Grindvíkingum í rimmunni sem hefst í næstu viku. „Við þurfum að stoppa Ivan undir körfunni og reyna að hemja EC einn á einn. Þeir eru með frábærar skyttur í Ólafi og Kristni. Við þurfum að jafna orkustigið þeirra. Óli og Kiddi geta verið ansi graðir á hringinn. Við þurfum að vera duglegir að stíga út og vera fastir fyrir.“ Sverrir Þór: Þeir verða í búning Sverrir Þór Sverrisson var ánægður með baráttu sinna manna í kvöld.Vísir/Vilhelm „Ég er heilt yfir sáttur með baráttuna hjá mínum mönnum. Það voru jákvæðir kaflar í leiknum en það er rosalega erfitt að gera eitthvað gegn liði sem er að skjóta boltanum 65%. Auðvitað eru þeir góðir að opna varnirnar þar sem þú setur engan einn gegn Glynn Watson sem dregur menn í sig,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Grindavíkur eftir tapið gegn Þór frá Þorlákshöfn í kvöld. „Þeir eru frábærir í að finna aukasendingar og fá besta skotið. Ég man ekki eftir 66% þriggja stiga skotnýtingu hjá liði sem er að skjóta mjög mikið. Þetta var alveg ótrúlegt og maður var farinn að hrista hausinn þegar hvert skotið fór niður, sama hvort við náðum að trufla þá og það virtist engu skipta.“ Grindavík var nítján stigum undir í hálfleik en unnu bæði þriðja og fjórða leikhluta sem gefur þeim eflaust smá hughreystingu eftir tapið og fyrir einvígi liðanna í 8-liða úrslitum. „Við komum hér og það vantar tvo sterka menn, þar af leiðandi eru aðrir leikmenn að byrja inn og aðrir að koma fyrr inn. Strákar að spila sem hafa ekkert spilað í vetur og það er það jákvæða.“ „Mér fannst menn leggja sig ágætlega fram en við vorum að spila við sterkt lið sem við erum að fara að mæta í úrslitakeppninni og við þurfum að vera með okkar sterkasta lið til að eiga möguleika gegn þeim í úrslitakeppninni. Nú er bara að ná mönnum heilum fyrir það og mæta grimmir. Við eigum eftir að fara yfir fullt af hlutum og þurfum að finna leiðir svo þeir setji ekki upp svona sýningu á móti okkur,“ bætti Sverrir Þór við. Hann bjóst við að EC Matthews og Ivan Aurrecoechea, sem voru frá vegna meiðsla í kvöld, verði klárir í slaginn gegn Þór í 8-liða úrslitunum. „Þeir verða bara í búning, ég segi það bara hér. Vonandi verða þeir orðnir það frískir að þeir geti verið á fullu gasi með okkur. Það er planið þangað til annað kemur í ljós.“ Leikir liðanna hafa oft verið kallaðir baráttan um Suðurstrandarveginn og Sverrir átti von á skemmtilegri rimmu og góðum stuðningi Grindvíkinga. „Það hefur alltaf verið mikil stemmning í Grindvíkingum þegar kemur að úrslitakeppninni og þeir hafa oft fengið að upplifa skemmtilega tíma. Vonandi verður það raunin hjá okkur í ár.“
Umfjöllun: Egyptaland - Ísland 24-27 | Annar frábær sigur og átta liða úrslit í sjónmáli Handbolti
Umfjöllun: Egyptaland - Ísland 24-27 | Annar frábær sigur og átta liða úrslit í sjónmáli Handbolti