Í tilkynningu segir að Alondra hafi umtalsverða reynslu af stjórnun, alþjóðaviðskiptum og markaðsmálum. Hún hafi sinnt samskiptum og markaðsmálum í um áratug, í fimm löndum og fjölmörgum atvinnugreinum, og hafi starfað hér á landi í nokkur ár.
„Árin 2017-2020 stýrði Alondra markaðs- og sölumálum hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Troll Expeditions, á miklu vaxtarskeiði fyrirtækisins. Árið 2020 tók hún við starfi sem ráðgjafi og síðar sem markaðsstjóri hjá Beedle, sem er íslenskt sprotafyrirtæki í tæknigeiranum. Hjá Beedle bar Alondra meðal annars ábyrgð á innleiðingu á nýrri markaðsstefnu félagsins á alþjóðamörkuðum, og vann m.a. í samstarfi með Microsoft, en viðskiptavinum félagsins fjölgaði mikið á þessu tímabili.
Alondra er með B.A. gráðu í málvísindum frá Universidad de Santiago de Chile þar sem hún stundaði jafnframt meistaranám í sama fagi. Þá er hún með M.A gráðu í Ameríkufræðum frá Háskóla Íslands,“ segir í tilkynningunni.
Kaptio er alþjóðlegt hugbúnaðarfyrirtæki sem býður bókunar- og viðskiptatengslahugbúnað fyrir ferðaþjónustufyrirtæki. Það var stofnað árið 2012 og er með höfuðstöðvar í Reykjavík en starfsemi í Bretlandi og Kanada. Alls starfa um fimmtíu manns hjá félaginu og eru helstu hluthafar þess Frumtak og Nýsköpunarsjóður ásamt stofnendum.