Norður-Makedónía gerði sér lítið fyrir og vann óvæntan 1-0 sigur gegn Ítölum í undanúrslitum umspilsins um laust sæti á HM í Katar í kvöld. Evrópumeistararnir eru því úr leik og verða ekki með á HM í desember.
Ítalir voru mun betri aðilinn í leiknum og voru til að mynda rúmlega 70 prósent með boltann í kvöld. Liðið sótti án afláts, en vörn makedónska liðsins stóð vel og gaf Ítölum ekki mörg færi á sér.
Það var því enn markalaust þegar flautað var til hálfleiks, og raunar hafi ekkert verið skorað þegar venjulegur leiktími rann út.
Á annarri mínútu uppbótartíma skoraði Aleksandar Trajkovski fyrir gestina frá Norður-Makedóníu og tryggði liðinu ótrúlegan sigur gegn ríkjandi Evrópumeisturum.
Norður-Makedónía er því á leið í hreinan úrslitaleik um sæti á HM þar sem liðið mætir Portúgal næstkomandi þriðjudag.