Selfyssingar voru ansi fáliðaðir fyrir norðan og voru aðeins með tvo leikmenn á varamannabekknum auk þess sem þjálfari liðsins, Dean Martin, var fjarri góðu gamni en Guðjón Björgvin Þorvarðarson stýrði Selfossliðinu í dag.
Það virtist þó ekki hafa slæm áhrif á Selfyssinga því þeir náðu tveggja marka forystu í fyrri hálfleik með mörkum Gary Martin og Daniel Majkic. Nökkvi Þeyr Þórisson minnkaði muninn fyrir KA með marki úr vítaspyrnu.
Í upphafi síðari hálfleiks náðu Selfyssingar aftur tveggja marka forystu með marki Gonzalo Zamorano Leon. Steinþór Freyr Þorsteinsson lagaði stöðuna fyrir KA en leiknum lauk með 2-3 sigri Selfyssinga.
Hafa bæði lið nú lokið leik í Lengjubikarnum þetta árið en FH-ingar unnu riðilinn og fara í undanúrslit.
Í Kópavogi unnu Breiðablik 3-0 sigur á KV en sigurinn var þó torsóttari en tölurnar gefa til kynna.
Leikurinn var markalaus allt þar til á 81.mínútu en þá tók varamaðurinn Jason Daði Svanþórsson leikinn algjörlega yfir.
Jason Daði hlóð í þrennu á síðustu tíu mínútum leiksins og tryggði Blikum 3-0 sigur. Þarf Kópavogsliðið að treysta á jafntefli í viðureign Stjörnunnar og ÍA á morgun til að komast í undanúrslit keppninnar.