Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri segist þegar hafa talsverðar áhyggjur af bágri fjárhagsstöðu ferðamálageirans og stríð í álfunni sé ekki á bætandi. Stríðsreksturinn hafi þau áhrif að hann bæði dregur úr ferðavilja og þrýstir verði upp.
„Það verður dýrara að ferðast“
„Við vorum að vonast eftir góðu ferðasumri en stríðið setur það í eitthvert uppnám, eins og allt sem leiðir af þeim hörmungum,“ segir Skarphéðinn sem bætir við að stríðsrekstur sé alltaf slæmur fyrir ferðaþjónustu.
„Alveg sama hvernig á það er litið. Það eru að vísu skiptar skoðanir um það hversu mikil áhrifin verða á ferðaþjónustuna hér á landi; hvort þau verði mikil eða lítil. Við eigum bara eftir að sjá það. Það er ekki bara þannig stríð dragi úr ferðavilja, sérstaklega þegar það svona stutt frá eins og Úkraína er í raun og veru, heldur hefur þetta líka áhrif á kostnað. Olíuverð er að fara upp og ýmislegt fleira. Það hefur þau áhrif að það verður dýrara að ferðast.“
Ferðaþjónustan að taka við sér en þó langt í land
Bókunarstaðan fyrir sumarið er þó ágæt. Ferðaþjónustan eigi þó langt í land til að ná þeim árangri og náðist fyrir heimsfaraldurinn. „Við erum náttúrulega búin að vera í óttalegu hallæri síðustu sumur út af COVID. Næsta sumar verður talsvert betra þó það séu vísbendingar um að það verði ekki eins fjölmennt og sumarið fyrir COVID.“
Síðustu vetrarmánuðirnir og vorið líti ekki nægilega vel út. Brottfarir erlendra farþega í febrúar síðastliðnum voru 76 þúsund en í sama mánuði árið 2020 voru þeir 133 þúsund.
„Við vitum að fjárhagsstaða ferðaþjónustunnar er mjög erfið og það þarf þónokkuð til að hún rétti úr kútnum. Ég efast nú um að það verði hagnaður þó að fjárhagurinn verði eitthvað skárri en hann hefur verið á síðustu tveimur árum.“
Ekki gert ráð fyrir mörgum ferðamönnum frá Asíu
En hvaða ferðamenn munu sækja Ísland heim næsta sumar?
„Við gerum nú ráð fyrir að þetta verði svipað og var fyrir COVID og að þessi sömu markaðssvæði komi til okkar; Evrópubúarnir, Bandaríkjamennirnir og Kanada. Það sem verður þó frábrugðið er að Asíumarkaðurinn tekur ekki við sér strax og það er almennt ekki gert ráð fyrir að þeir verði hérna á ferðinni neitt af ráði á þessu ári.“
Þrátt fyrir að ferðaþjónustan á Íslandi standi frammi fyrir ýmsum áskorunum er margt jákvætt í gangi. Tilkoma flugfélagsins Play sé til dæmis mikið gleðiefni að mati ferðamálastjóra.
„Það skiptir mjög miklu máli að það sé sem mest framboð af flugsætum og að það sé fjölbreytileiki í því þannig að það er alveg klárt að það hefur góð og jákvæð áhrif að það sé fólk að fljúga hingað þannig að það er engi spurning um það.“