Sport

Sergej Bubka: Úkraína mun vinna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergej Bubka er í mörgum ábyrgðarstöðum í dag, bæði hjá Úkraínu sem og á alþjóðlegum vettvangi.
Sergej Bubka er í mörgum ábyrgðarstöðum í dag, bæði hjá Úkraínu sem og á alþjóðlegum vettvangi. Getty/Ian Gavan

Fyrrum heimsmeistari og heimsmethafi í stangarstökki styður þjóð sína á samfélagsmiðlum og er sannfærður um að Úkraína standi uppi sem sigurvegari en verði ekki „þurrkuð“ út af Rússum.

Sergej Bubka er í hópi bestu frjálsíþróttamanna sögunnar en hann setti á sínum tíma 35 heimsmet.

Bubka fæddist í Luhansk en keppti fyrst fyrir Sovétríkin en svo áfram fyrir Úkraínu eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur.

„Ég elska Úkraínu með öllu mínu hjarta. Við munum vinna,“ skrifaði Sergej Bubka á Twitter-síðu sína.

Bubka var sá fyrsti í heiminum til að stökkva yfir sex metra í stangarstökki. Hann vann eitt Ólympíugull og sex heimsmeistaratitla á ferli sínum. Hann setti líka 35 heimsmet og var þekktur fyrir að hækka aðeins um einn sentímetra þegar hann gat náð sér í vegleg verðlaun fyrir að setja heimsmet.

Margir eru þessa sannfærðir ef að Bubka hefði farið eins hátt og hann gat þegar hann var bestur þá hefði heimsmet hans endað mun hærra. Bubka fór hæst yfir 6,14 metra en síðan hafa þeir Renaud Lavillenie frá Frakklandi (6,16) og Armand Duplantis frá Svíþjóð (6,17 og 6,18 metrar). Lavillenie tók metið af Bubka árið 2014 en Úkraínumaðurinn hafði þá átt það samfellt frá árinu 1984 eða í þrjá áratugi.

Bubka er í dag forseti Ólympíusambands Úkraínu, varaforseti Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins og hefur verið lengi meðlimur í Alþjóðaólympíunefndinni.

„Mínu kæru Úkraínubúar. Sársauki ykkar fer ekki fram hjá Ólympíufjölskyldunni. Eins og allir Úkraínumenn þá get ég ekki sofið. Ég mun leita allra ráða til að vernda landið okkar, nota öll mín alþjóðlegu tengsl. Stríðið verður að enda, friður og manngæskan verður að vinna,“ skrifaði Sergej Bubka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×