Bohdana Vasyliuk, sem er fædd og uppalinn í Úkraínu hefur búið á Íslandi í þrjú og hálft ár með íslensku manni, Árna Hilmarssyni. Saman eiga þau níu ára strák. Bohdan vinnur á leikskóla á Selfossi og er alsæl að eiga heima á Íslandi á sama tíma og stríð geisar í heimalandi hennar. Hún og Árni finna fyrir miklum hlýhug fólks á þessum erfiðu tímum.
En eins og gefur að skilja þá eru þau alltaf að hugsa um stríðið.
„Mér líður ekki vel, ég er með brotið hjarta og er alltaf að hugsa um fjölskylduna mína í Úkraínu, mömmu, pabba, bróðir minn og barnið hans. Þetta er ekki gott, þetta er bara bull, stríð gerir allt vont fyrir allt fólk og heiminn,“ segir Bohdana
Fjölskylda Bohdönu hefur komið í heimsókn til Íslands og ferðast um landið. Hún segir óbærilegt að vita af þeim úti núna í stríðinu.
En hverju spáir hún um framhaldið?
„Ég held að það verði meira og meira, alla daga verður meira stríð, meira verið að skjóta og meira verið að sprengja, þetta er ekki að fara að stoppa,“ segir hún ákveðin.

Árni er sammála konu sinni.
„Hann mun ekkert stoppa, hann mun halda áfram, hann mun taka Úkraínu. Hann muni bara fara í næstu lönd. Já, ég er alveg 100 prósent viss um það. Maður er sár, svekktur og aumur, ég held að reiðin komi seinna, maður á ekki orð, maður skilur þetta ekki,“ segir Árni.
Bohdana og Árni lánuðu Sveitarfélaginu Árborg Úkraínska þjóðfánann sinn, sem blaktir nú við hún alla daga á fánastöng við Ölfusárbrú.
