Heimamenn í Antwerp Giants tóku forystuna strax í upphafi leiks og leiddu með tíu stigum að fyrsta leikhluta loknum. Þeir héldu því forskoti út fyrri hálfleikinn, en þegar gengið var til búningsherbergja var staðan 49-39, Antwerp í vil.
Heimamenn mættu aftur grimmir til leiks í síðari hálfleik og náðu mest 24 stiga forskoti í þriðja leikhluta. Gestirnir gáfu sig þó ekki og náðu að minnka muninn fyrir lokaleikhlutann niður í 13 stig.
Elvar og félagar héldu gestunum í hæfilegri fjarlægð í lokaleikhlutanum og unnu að lokum góðan tólf stiga sgiur, 94-82.
Elvar skoraði níu stig fyrir heimamenn í dag, en ásamt því tók hann fimm fráköst og gaf 13 stoðsendingar. Antwerp Giants situr nú í þriðja sæti deildarinnar með 29 stig eftir 18 leiki.