Ólöglegu lyfin ostarine og S-23 fundust í sýni CJ Ujah sem var tekið eftir úrslitahlaupið í Tókýó. Hann ætlar ekki að áfrýja niðurstöðunni en segist ekki hafa tekið ólögleg lyf viljandi.
Alþjóða frjálsíþróttasambandið íhugar nú hvort það eigi að dæma hinn 27 ára Ujah í keppnisbann.
Í yfirlýsingu segist Ujah sjá mikið eftir því að hafa fallið á lyfjaprófinu og bað félaga sína í bresku boðhlaupssveitinni afsökunar.
„Ég er miður mín að þessi staða hafi kostað liðsfélaga mína verðlaunin sem þeir lögðu þeir lögðu svo hart að sér að vinna til og áttu svo innilega skilið. Ég mun sjá eftir þessu svo lengi sem ég lifi,“ sagði Ujah sem keppti á sínum öðrum Ólympíuleikum í Tókýó.
Auk hans voru Zharnel Hughes, Richard Kelly og Nethaneel Mitchell-Blake í bresku boðhlaupssveitinni sem var aðeins einum hundraðshluta úr sekúndu á eftir Ítalíu. Kanada lenti í 3. sæti og Kína í því fjórða.