Alþjóða íþróttadómstóllinn, CAS, komst að þeirri niðurstöðu í síðustu viku að Valieva mætti keppa á Vetrarólympíuleikunum þrátt fyrir að hafa fallið á lyfjaprófi í desember, á rússneska meistaramótinu.
Þess vegna fær hún að keppa í dag í seinni hluta listhlaups á skautum þar sem hún er afar sigurstrangleg. Verðlaun verða hins vegar ekki veitt á leikunum í þeim greinum þar sem Valieva endar í einu af efstu þremur sætum, á meðan að beðið er eftir endanlegri niðurstöðu um afleiðingar lyfjaprófsins.
Valieva hefur þegar leitt Rússa, sem vegna lyfjahneykslisins þar í landi keppa undir nafni ólympíunefndar Rússlands, til sigurs í liðakeppni listhlaupsins.
Mjög vonsvikin yfir niðurstöðu CAS
Sarah Hirshland, framkvæmdastjóri keppnisliðs Bandaríkjanna, hefur sagt að Rússar sýni með kerfisbundnum hætti algjöra vanvirðingu gagnvart „hreinum íþróttum“ og fleiri eru vonsviknir yfir niðurstöðu CAS, líkt og forseti alþjóða lyfjaeftirlitsins:
„Við erum mjög vonsvikin yfir niðurstöðu CAS-ráðsins. Það er áhyggjuefni að ráðið hafi ákveðið að fara ekki eftir því sem fram kemur í alþjóðlegu lyfjareglunum,“ sagði Banka við Eurosport.
„Frá okkur séð er þetta því önnur mjög umdeild niðurstöðu en auðvitað lútum við henni.
En ef við tölum almennt um það að dópa börn þá er það að mínu mati, og að mati WADA, hrein illgirni og óverjanlegt. Það fólk sem gefur börnum ólögleg lyf er að drepa hreinar íþróttir,“ sagði Banka.
Ættu að hljóta lífstíðarbann og fangelsisdóm
„Læknarnir, þjálfararnir og annað fólk sem sýnt er að hafi gefið börnum árangursaukandi lyf ætti svo sannarlega að hljóta lífstíðarbann. Að mínu mati ætti það fólk einnig að fara í fangelsi. Sum lönd hafa þegar gert það glæpsamlegt að láta börn neyta lyfja… Ég held að það sé mjög sterk og góð leið,“ sagði Banka.
Hann sagði WADA koma til með að sjá til þess að rússneska lyfjaeftirlitið myndi gera ítarlega rannsókn varðandi fólkið á bakvið Valievu.