Körfubolti

La­Vert sökkti sínum gömlu fé­lögum | Stór­leikur Jokic dugði ekki til

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stórleikur Jokic dugði ekki til í nótt.
Stórleikur Jokic dugði ekki til í nótt. John McCoy/Getty Images

Alls fóru sjö leikir fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Caris LaVert sökkti sínum gömlu félögum í Indiana Pacers og Nikola Jokić átti enn einn stórleikinn en það dugði ekki til.

LaVert var nýverið sendur til Cleveland Cavaliers og hann átti fínan leik er Cavaliers vann Indiana Pacers 120-113. LaVert skoraði 22 stig í liði Cleveland líkt og Jarrett Allen en sá síðarnefndi tók einnig 14 fráköst.

Hjá Pacers var Tyrese Haliburton stigahæstur með 23 stig.

Jokić var frábær í liði Denver Nuggets sem mátti samt sem áður þola tap gegn Boston Celtics, lokatölur 108-102. Jokić gerði sitt besta og bauð upp á tvöfalda þrennu. Hann skoraði 23 stig, gaf 11 stoðsendingar og tók 16 fráköst.

Það dugði ekki til að þessu sinni en Jayson Tatum skoraði 24 stig í liði Boston. Þar á eftir kom Marcus Smart með 22 stig.

Í öðrum leikjum var það helst að frétta að Donavan Mitchell skoraði 24 stig í öruggum sigri Utah Jazz á Orlando Magic, lokatölur 114-99.

LaMelo Ball skoraði 31 stig og gaf 12 stoðsendingar er Charlotte Hornets unnu Detroit Pistons 141-119. 

Terry Rozier bætti við 25 stigum, 11 stoðsendingum og 10 fráköstum í liði Charlotte á meðan Saddiq Bey var stigahæstur í liði Detroit.

DeMar DeRozan skoraði 35 stig í stórskemmtilegum leik Chicago Bulls og Minnesota Timberwolves. Nautin frá Chicago unnu tólf stiga sigur, lokatölur 134-122. 

Þetta var fimmti leikurinn í röð sem DeRozan skorar 30 stig eða meira. Anthony Edwards skoraði 31 stig í liði Timberwolves.

Dejounte Murray var með tvöfalda þrennu með 32 stig, 15 stoðsendingar og 10 fráköst í góðum sigri San Antonio Spurs á Atlanta Hawks, lokatölur 136-121.

Þá vann Philadelphia 76ers fínan sigur á Oklahoma City Thunder, lokatölur 100-87.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×