Þetta kom fram á fréttamannafundi þjóðaröryggisráðgjafa Joe Biden Bandaríkjaforseta, Jake Sullivan. Þar sagði hann rússneskt herlið vera í aðstöðu til þess að ráðast í stórvægar hernaðaraðgerðir og hvatti Bandaríkjamenn í Úkraínu til þess að forða sér sem fyrst.
„Við getum augljóslega ekki sagt til um framtíðina og við vitum ekki nákvæmlega hvað mun gerast, en áhættan er nú nægilega mikil og ógnin svo yfirvofandi að nú er skynsamlegur tími til þess að fara,“ sagði Sullivan meðal annars á fundinum.
"We want to be crystal clear on this point: Any American in Ukraine should leave as soon as possible and in any event, the next 24-48 hours," National Security Advisor Jake Sullivan says. pic.twitter.com/DAlAuBYXHR
— MSNBC (@MSNBC) February 11, 2022
Hann bætti því við að Bandaríkjastjórn væri ekki kunnugt um hvort Vladímír Pútín Rússlandsforseti hefði tekið endanlega ákvörðun um að ráðast inn í Úkraínu, en sagði rússnesk stjórnvöld nú leita ljósum logum að afsökun til þess að hefja innrás.
Sullivan sagði þá að innrásin kynni að hefjast með loftárásum Rússa á Úkraínu, sem myndi torvelda almennum borgurum að komast frá landinu. Því myndi borga sig að forða sér frá landinu sem fyrst.
Fleiri lönd hafa þá hvatt ríkisborgara sína í Úkraínu til þess að fara annað. Þeirra á meðal eru Bretland, Holland, Lettland, Japan og Suður-Kórea.