Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en lagt hefur verið hald á ökutæki og skotvopn sem lögreglan telur að hafi verið notað við verknaðinn.
Greint var frá því í dag að fyrri maðurinn sé grunaður um að hafa skotið á karl og konu sem stödd voru utandyra í Grafarholti. Þau voru flutt á slysadeild en þau eru ekki í lífshættu. Sérsveit ríkislögreglustjóra handtók manninn miðsvæðis í Reykjavík í morgun.
Sá grunaði er samkvæmt heimildum fréttastofu á 23. aldursári og hefur varið stórum hluta fullorðinsáranna á bak við lás og slá. Maðurinn hefur þrátt fyrir ungan aldur endurtekið komið við sögu lögreglu og hlotið dóma fyrir vopnaburð án tilskilinna leyfa.
Að sögn lögreglu var hún með mikinn viðbúnað eftir að tilkynning um skotárásina barst í nótt enda málið talið mjög alvarlegt. Lögreglan hyggst ekki veita frekari upplýsingar að svo stöddu.