Isak hafnaði í 78. sæti af 88 keppendum á tímanum 3:11,95 mínútum. Aðeins þrjátíu fljótustu komust áfram í undanúrslitin sem nú eru að hefjast og varð Luke Jager frá Bandaríkjunum síðastur inn á 2:54,44 mínútum.
Isak er fjórði fulltrúi Íslands sem hefur keppni á leikunum en fyrr í dag keppti Kristrún Guðnadóttir einnig í sprettgöngu og varð í 74. sæti af níutíu keppendum.
Þriðji skíðagöngumaðurinn, Snorri Einarsson, keppti ekki í sprettgöngunni en verður með í 15 km göngu á föstudagsmorgun, eftir að hafa náð besta árangri Íslendings í skíðagöngu með því að enda í 29. sæti í 30 km skiptigöngu á sunnudaginn.
Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir keppti í stórsvigi í gær en féll illa í fyrri ferðinni. Hún slapp þó við alvarleg meiðsli og stefnir á að keppa í svigi, í nótt að íslenskum tíma.
Sturla Snær Snorrason hefur hins vegar ekki hafið keppni en hann greindist með kórónuveiruna og er í einangrun. Hann er skráður til keppni í stórsvigi aðfaranótt 13. febrúar.