Þorsteinn Jónsson veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir lægðina sem margir landsmenn urðu varir við fyrr í dag ekki horfna enn. Rauð viðvörun var í gildi, meðal annars á höfuðborgarsvæðinu, og appelsínugular viðvaranir í gildi annars staðar á landinu.
Þorsteinn ræddi Veðrið í Reykjavík síðdegis fyrr í dag og segir að full innistæða hafi verið fyrir rauðu viðvöruninni. Hann segir að fólk hafi líklega „sofið veðrið af sér“ og bætir við að sem betur fer hafi vel verið varað við veðrinu. Lægðin láti þó áfram á sér kræla.
„Þessi djúpa og krappa lægð sem olli óveðrinu í morgun - hún er enn þá á sveimi þarna úti á Grænlandshafi. Og hún sendi frá sér lægðardrag eða éljagarð núna í kvöld þannig að það hvessir aftur hérna sunnan og vestanlands með snjókomu.
Svo fer þessi garður norður á bóginn upp Breiðafjörð og Vestfirði með tilheyrandi snjókomu og hríð og svona frekar leiðinlegu veðri í kvöld og í nótt,“ segir Þorsteinn.
Þorsteinn vonar að ofankoma verði ekki of mikil en telur líklegt að færð geti spillst leyti. Besta veðrið verði á norður og austurlandi en þar hafi veðrið gengið niður að mestu leyti.
Á höfuðborgarsvæðinu er spáð suðvestanátt 13-20 metrum á sekúndu og éljagangi. Hviður gætu farið yfir 35 metra á sekúndu og auknar líkur eru á eldingum. Gert er ráð fyrir sama eða sambærilegu veðri á Suðurlandi, í Faxaflóa, á Breiðafirði og á Vestfjörðum.
Hlusta má á viðtalið við Þorstein í Reykjavík síðdegis hér að neðan.