Í yfirlýsingu segist miðilinn útbúa fyrirsagnir fyrir marga mögulega atburði og að umrædd fyrirsögn hafi birst á vefnum um klukkan níu að íslenskum tíma. Bloomberg biðst innilegrar afsökunar á afglöpunum, segir að fyrirsögnin hafi verið fjarlægð og rannsókn hafin á orsökum birtingarinnar.
Mikil spenna hefur verið á landamærum Rússlands og Úkraínu að undanförnu og óttast sumir Rússar íhugi innrás í landið.
Hermönnum fjölgað til muna
Atlantshafsbandalagið (NATO) fullyrti á fimmtudag að Rússar hafi flutt um þrjátíu þúsund hermenn og nútímavopn til Hvíta-Rússlands á undanförnum dögum. Þá sagði varnarmálaráðherra Úkraínu að Rússar hafi sent um 115 þúsund hermenn að landamærum landsins.
Joe Biden Bandaríkjaforseti tilkynnti á fimmtudag að um tvö þúsund hermenn til viðbótar verði sendir frá Fort Bragg í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum til herstöðva í Póllandi og Þýskalandi og þá verði um þúsund bandarískir hermenn sem nú þegar eru í Þýskalandi sendir til Rúmeníu.
Stjórnvöld í Rússlandi hafa fordæmt ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að fjölga í herliði Bandaríkjahers í Austur-Evrópu og sagt að aðgerðin komi einungis til með að auka á spennuna.