Kolbrún var gestur í nýjasta þættinum af Spjallið með Góðvild sem kom út hér á Vísi í dag. Þar ræddi hún meðal annars um skóla án aðgreiningar.
„Þetta er falleg hugmyndafræði og mannleg og segir okkur að við eigum að taka á móti hverjum nemanda eins og hann er. Mér finnst þessi hugmyndafræði vera góð og ég held að öllum kennurum þyki hún góð,“ útskýrir Kolbrún.

„Allir kennarar vilja vinna samkvæmt skóla án aðgreiningar. Öll sveitarfélög vilja vinna og gera vel hvað þetta varðar.“
Kennarar þurfi þó meiri stuðning í kennsluna við að sinna mismunandi börnum með mismunandi þarfir.
Nauðsynlegt að fá meiri stuðning
„Skólinn er ekki lengur bara skólastjóri, kennari, nemandi. Skólinn er orðinn miklu meiri breidd. Þarna þurfa að koma inn sérfræðingar, sem kennarinn þarf á að halda. Ég held að lang flestir skólar séu með sérkennara sem stýrir ákveðinni sérkennslu, hvort sem það er inn í skólastofunni eða skólarýminu eða í sér rýmum sem margir velja að hafa.“

Kolbrún segir að margir skólar kalli eftir því að fá að hafa sérkennslurými þar sem hægt sé að sinna þörfum nemenda.
„Vandinn við skóla án aðgreiningar í dag er sá að okkur vantar fleiri sérfræðinga inn í starfið með okkur. Kennarar þurfa fleiri sérfræðinga inn í kennslustofuna eða inn í kennslurýmið með sér.“
Viðtalið í heild sinni má heyra í spilaranum hér fyrir neðan. Í þættinum er einnig rætt um NPA þjónustu, nýtingu fjármagns hins opinbera, menntamálin, starfsmannavanda í skólum og fleira tengt málefnum barna.
Þættirnir Spjallið með Góðvild eru sýndir á Vísi og Stöð 2 Vísi en einnig er hægt að hlusta á flestum hlaðvarpsstöðvum.
Verkefnið er afurð margra ára samstarfs Sigurðar Hólmars Jóhannessonar framkvæmdastjóra Góðvildar og Ágústu Fanneyjar Snorradóttur kvikmyndagerðarkonu og eiganda Mission Framleiðslu.
Þættirnir eru nýr vettvangur til að koma málefnum langveikra og fatlaðra barna á framfæri og auka í leiðinni sýnileika fyrir mikilvæg málefni. Hægt er að hafa samband við Sigurð og Ágústu Fanney vegna þáttanna í gegnum vefsíðuna godvild.is eða samfélagsmiðla félagsins. Með því að styrkja Góðvild þá ertu að styðja við langveik og fötluð börn á Íslandi. Styrktarreikningur 0301-26-660117, kennitala 6601172020.