Óskarsakademían spurði fylgjendur sína á Twitter í vikunni hverja þau myndu vilja sjá sem kynni á hátíðinni. Fylgjendurnir voru spenntir og stútfullir af hugmyndum og hafa borist alls 15.000 svör. Þó svo að svörin væru mörg komu sömu nöfnin oft fyrir og er augljóst að fólk er með sterkar skoðanir á málinu.
Hypothetically, if we asked you who would you want to host the Oscars, and this is strictly hypothetical, who would it hypothetically be?
— The Academy (@TheAcademy) January 13, 2022
Sá einstaklingur sem hefur verið nefndur hvað mest í tengslum við kynnahlutverkið er leikarinn Tom Holland. Tom fór nýlega með hlutverk Spidermans í myndinni Spider-man: No Way Home og á stóran hóp fylgjenda. Tom hefur sagt í viðtali að ef honum yrði boðið starfið myndi hann taka því með glöðu geði. Samkvæmt The Hollywood Reporter hefur Akademían verið í sambandi við teymið hans um möguleikann á því að kynna hátíðina.
Þeir sem nefndu Tom sem kynni í skoðunarkönnuninni hjá Akademíunni vildu ýmist sjá hann í hlutverkinu ásamt leikkonunni Zendayu, sem er einnig kærasta leikarans, eða með fyrrum Spiderman leikurunum Andrew Garfield og Tobey Maguire.

Nýlega fóru þó sögusagnir af stað um það að Pete Davidson væri einnig að sækjast eftir hlutverkinu og væri spennandi valmöguleiki þar sem hann nær vel til yngri áhorfenda. Hann var nýlega kynnir ásamt Miley Cyrus á áramótafögnuði NBC þar sem áhorfendatölur komu vel út. Það verður áhugavert að sjá hvort að eitthvað sé til í þessum sögusögnum þegar kynnirinn verður kynntur á næstu dögum eða vikum.
Í Twitter skoðunarkönnuninni voru margir nefndir á óskalistanum eins og Tina Fey, Amy Poehler, Dwayne Johnson, Maya Rudolph, Tom hanks, Kristen Wiig, Jason Sudeikis, Chris Rock og Graham Norton. Önnur teymi sem komu oft fyrir í svörunum voru Only Murders in the Building tríóið Steve Martin, Martin Short og Selena Gomez en einnig hjónin Emily Blunt og John Krasinski.
Nú er bara að bíða og sjá hver verður fyrir valinu.
