Þetta kemur fram í tilkynningu frá sóttvarnalækni og almannavörnum þar sem vísað er til mikils álags á göngudeildinni og smitrakingateymi almannavarna. Líkt og áður telst dagurinn sem einstaklingur fer í jákvætt PCR-próf vera dagur núll en hvorki má nota hraðpróf né heimapróf sem viðmið fyrir dag núll.
Samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum þarf ekki að hafa samband við Covid-göngudeild vegna útskriftar, en þessar breytingar eiga meðal annars að draga úr álagi á deildina.
Ekki alltaf tekist að útskrifa fólk vegna álags
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, sagði við fréttastofu í dag að dæmi væru um að ekki hafi tekist að útskrifa fólk úr einangrun á sjöunda degi sökum álags á Covid-göngudeildinni. Hann sagði stöðuna á Landspítalanum sjaldan hafa verið þyngri en nú.
„Göngudeildin, eins og aðrir, hefur verið undir miklu álagi og það er verið að reyna að útskrifa eins hratt og hægt er. En í einhverjum tilfellum eru dæmi um að fólk hefur ekki útskrifast fyrr en á áttunda, níunda eða jafnvel tíunda degi. Í flestum tilfellum hefur það þó verið fólk sem er undir einhvers konar eftirliti,” sagði Víðir.
Hins vegar væri verið að vinna í því að gera kerfið skilvirkara en fram að þessu var fólk í einangrun þar til það fékk tilkynningu frá göngueildinni um útskrift.
1.242 greindust með kórónuveiruna í gær, þar af 198 á landamærunum. 9.745 sjúklingar voru skráðir hjá Covid-göngudeild Landspítalans í morgun, þar af 2.393 börn. Þá eru 38 sjúklingar inniliggjandi á Landspítalanum með Covid-19, þar af átta á gjörgæslu og sex þeirra í öndunarvél.
Áfram í sóttkví þrátt fyrir örvunarskammt
Breyttar reglur um sóttkví fyrir fólk sem hefur fengið örvunarskammt og er útsett fyrir Covid-19 tóku gildi í gær. Áréttað er í tilkynningu almannavarna að þetta eigi við um alla sem eru í sóttkví, einnig þá sem eru á sama stað og smitaður einstaklingur.
Mikilvægt sé að hafa í huga að þeir sem ekki þurfi að uppfylla fyrri skilyrði sóttkvíar þurfi samt sem áður að uppfylla eftirfarandi skilyrði og og fara í PCR-próf á fimmta degi frá útsetningardegi.
Að sögn almannavarna og sóttvarnalæknis fela breyttar reglur í sér að hlutaðeigandi er í raun áfram í sóttkví með eftirfarandi undantekningum:
- heimilt að sækja vinnu eða skóla og sækja sér nauðsynlega þjónustu, s.s. heilbrigðisþjónustu, fara í matvöruverslanir og lyfjabúðir og nota almenningssamgöngur,
- óheimilt að fara á mannamót eða staði þar sem fleiri en 20 koma saman, nema í því samhengi sem nefnt er hér að ofan,
- skylt að nota grímu í umgengni við alla nema þá sem teljast í nánum tengslum og gildir grímuskyldan einnig þótt hægt sé að halda tveggja metra fjarlægð,
- óheimilt að heimsækja heilbrigðisstofnanir, þar með talin hjúkrunarheimili, nema með sérstöku leyfi viðkomandi stofnunar,
- skylt að forðast umgengni við viðkvæma einstaklinga sem eru í aukinni hættu á alvarlegum veikindum ef þeir smitast af Covid-19.
Fréttin hefur verið uppfærð.