Sport

Djokovic ekki hleypt inn í Ástralíu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Djokovic er fastur á flugvellinum í Ástralíu.
Djokovic er fastur á flugvellinum í Ástralíu. EPA-EFE/IAN LANGSDON

Novak Djokovic, efsti maður heimslistans í tennis, fær ekki að fara inn í Ástralíu vegna vandræða í tengslum við vegabréfsáritunar hans. Hann er skráður til leiks í Opna ástralska meistaramótinu í tennis sem hefst 17. janúar.

Djokovic sagði stoltur frá því nýverið að hann hefði fengið undanþágu til að taka þátt á Opna ástralska en forráðamenn mótsins höfðu sett þá reglu að allir keppendur þyrftu að vera bólusettir. Djokovic er óbólusettur en virtist hafa tryggt sér áðurnefnda undanþágu.

Vefur breska ríkisútvarpsins greindi frá því í kvöld að Djokovic sé lentur í Ástralíu en fái ekki að fara inn í landið þar sem vegabréfsáritun hans stenst ekki skoðun. Honum verður flogið úr landi á morgun, fimmtudag, en lögfræðingar hans leita nú leiða til að tryggja þess að hann fái inngöngu í landið og geti tekið þátt í mótinu.

Samkvæmt frétt BBC hafði teymið hans Djokovic ekki beðið um vegabréfsáritun sem veitir undanþágu þar sem hann er óbólusettur. Áströlsk yfirvöld segja að Djokovic hafi ekki sýnt nægjanleg sönnungargögn til að fá inngöngu í landið.

Forsætisráðherra Ástralíu hefur tjáð sig um málið. Hann segir að reglur séu reglur.

Djokovic hefur unnið 20 risatitla á ferlinum, þar af Opna ástralska níu sinnum. Hann hefur unnið mótið undanfarin þrjú ár en gæti nú farið svo að hann fái ekki tækifæri til að verja titilinn.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×