Þau sem eru með kvefeinkenni og það veik að ekki er hægt að bíða eftir niðurstöðu úr PCR-sýnatöku eru beðin um að hafa samband við heilsugæsluna fyrir komu. Þeir einstaklingar fara í hraðpróf og PCR-próf þegar þeir mæta á heilsugæslu. Ekki dugar að framvísa neikvæðu heimaprófi við komuna.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þar segir að nú sé lögð áhersla á að vernda starfsemi heilsugæslustöðvanna til að geta haldið áfram að veita nauðsynlega þjónustu. Unnið sé að því að bæta aðstöðu fyrir sýnatöku á stöðvunum til að bæta aðgengi fyrir alla.
Áfram er grímuskylda á öllum starfsstöðvum og minnt á mikilvægi handþvotts og handspritts. Þá er þeim tilmælum beint til fólks að fækka fylgdarmönnum, halda fjarlægð og stytta tíma sem dvalið er á stöðinni.
Að sögn heilsugæslunnar hefur starfsemi stöðvanna verið endurskipulögð eins og hægt er til að minnka hættu á smiti en veita samt mikilvæga þjónustu.