Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um andlát Sigurdórs og lagið sem sló í gegn árið 1960 þegar hann söng það með hljómsveit Svavars Gests. Þrjátíu árum síðar söng hann lagið fræga í þætti á Stöð 2 með upphafserindinu:
„Ennþá geymist það mér í minni, María, María,
hvernig við fundumst í fyrsta sinni, María, María.
Upphaf þess fundar var í þeim dúr,
að ætluðum bæði í Merkurtúr.
María, María, María, María, María, María.“

Sigurdór lést á Landspítalanum á öðrum degi jóla, 83 ára að aldri. Í þættinum árið 1990 rifjaði hann upp með Helga Péturssyni þegar hljómsveitin heyrði fyrst Þórsmerkurljóð Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings. Það var á skemmtun hjá Ferðafélagi Íslands þar sem Sigurður söng sjálfur ljóðið sem hann samdi við þýskt þjóðlag.

Sigurdór var fjölmiðlamaður mestan sinn starfsferil í hálfa öld, fyrst prentari en síðar blaðamaður við Þjóðviljann, DV, Dag og Bændablaðið, en hann var einnig kunnur fararstjóri og vísnasafnari. Hann lætur eftir sig eiginkonu, Sigrúnu Gissurardóttur. Þau eignuðust tvær dætur, þrjú barnabörn og fyrsta langafabarnið fæddist í haust.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 og hlýða á brot úr laginu fræga:
Hér má sjá fimm mínútna kafla úr sjónvarpsþætti á Stöð 2 árið 1990 þar sem Sigurdór syngur Þórsmerkurljóð í heild sinni: