Yfir fimm þúsund manns eru nú í eftirliti á Covid-19 göngudeild Landspítalans og fjölgaði þeim um 791 milli daga. 21 er inniliggjandi á spítalanum með Covid og fjórir á gjörgæslu, þar af eru þrír í öndunarvél.
Landspítali var færður upp á hættustig þann 5. nóvember síðastliðinn og hefur ástandið aðeins versnað síðan þá. Álagið er svo mikið að spítalinn tilkynnti í dag að flytja eigi þrjátíu sjúklinga af spítalanum og á aðrar heilbrigðisstofnanir vegna álags undan Covid.
Þá hefur óbólusettum verið óheimilt að heimsækja aðstandendur sína á spítalann síðan á aðfangadag.
Fram kemur í tilkynningu á vef Landspítalans að álagið á spítalanum eigi sér margar skýringar en þar beri fyrst að nefna útbreiðslu veirunnar skæðu í samfélaginu og innan spítalans. Nú séu til að mynda meira en hundrað starfsmenn frá vinnu vegna Covid-smits. Annar eins hópur sé í sóttkví og hafi því verið gripið til þess neyðarúrræðis að kalla inn til vinnu starfsmenn sem séu í sóttkví að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
Hluti legurýma sé sérútbúinn fyrir sjúklinga með Covid og þau rými séu flest í notkun og ekki laus fyrir aðra. Innlögnum á spítalann vegna Covid fari fjölgandi og nú hafi bæst við smit sem hafi greinst óvænt innan spítalans, til dæmis á bráðamóttöku, hjartadeild, Landakoti og fleiri deildum.
„Nú er svo komið að margar deildir þurfa að sinna Covid smituðum skjólstæðingum þar sem þeir greinast. Við þetta bætist síðan að ekki hefur náðst að útskrifa fólk sem þegar hefur lokið meðferð á spítalanum,“ segir í tilkynningunni.