Lögð var áhersla á að styrkja hluthafahóp Lauf til framtíðar en tekjur fyrirtækisins hafa um það bil tvöfaldast á hverju ári undanfarin þrjú ár. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lauf og er velta félagsins fyrir árið 2021 sögð verða tæpur milljarður króna. Þá mun félagið skila hagnaði. KPMG var ráðgjafi Lauf í hlutafjáraukningarferlinu.
Stofnað utan um demparagaffal
Að sögn forsvarsmanna verður nýtt hlutafé meðal annars nýtt í mikla markaðssókn á næsta ári. Með nýjar einkaleyfavarðar vörur í farvatninu og nýja starfsstöð í Virginíu-ríki í Bandaríkjunum stefnir félagið á áframhaldandi vöxt næstu árin. Tæplega 80% af sölu Lauf eru á Bandaríkjamarkaði.
Lauf Forks var stofnað árið 2011 og hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir framsæknar nýjungar í hjólageiranum.
Í upphafi var fyrirtækið stofnað utan um uppfinningu á demparagaffli fyrir reiðhjól sem fyrirtækið er með einkaleyfi á. Í dag er fyrirtækið einnig með alþjóðlegt einkaleyfi á stýri fyrir reiðhjól sem einnig er uppfinning félagsins. Þá eru tvær tegundir hjóla framleidd undir merkjum Lauf. Annars vegar malarhjólið Lauf True Grit og hins vegar alhliða reiðhjólið Lauf Anywhere.