Samgönguráðuneyti Indónesíu tilkynnti það í morgun að flugbanni yfir Boeing 737 Max flugvélum verði brátt aflétt. Tvær 737 Max þotur hröpuðu með nokkurra mánaða millibili haustið 2018 og vorið 2019, annars vegar í Indónesíu og hins vegar í Eþíópíu.
189 fórust í flugslysinu í Indónesíu í október 2018 og 157 í flugslysinu í Eþíópíu. Stuttu síðar tóku flugmálayfirvöld um heim allan þá ákvörðun að setja þotur af þessari gerð í flugbann.
Þoturnar voru teknar aftur í notkun í Bandaríkjunum og Evrópu fyrr á þessu ári eftir að gerðar voru grundvallarbreytingar á hönnun vélarinnar. Þá hafa Ástralía, Japan, Indland, Malasía, Singapúr og Eþíópía lyft flugbanninu á síðustu mánuðum.
https://www.visir.is/g/20202040241d
Flugmenn í Indónesíu munu þurfa að fara í sérstakt flugpróf áður en þeir fá leyfi til að fljúga 737 Max flugvélum á ný.
Flugfélagið Garuda Indonesia hyggst ekki hefja notkun á 737 Max þotunum aftur, alla vega ekki í bráð og segir í yfirlýsingu að nú sé það í forgangi hjá félaginu að borga niður skuldir og minnka flotann. Flugfélagið Lion Air, sem rak vélina sem hrapaði árið 2018, hefur enn ekki tjáð sig um málið.