Þegar hefur verið greint frá því að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður flokksins og Guðbrandur Einarsson þingmaður hafi smitast. Þorgerður finnur aðeins fyrir vægum flensueinkennum. Hún er nú í einangrun í sumarbústað í Ölfusi og verður ein um jólin.
„Það var mikið tilhlökkunarefni að við ætluðum að fara öll fjölskyldan bara yfir hájólin til Gísla, miðbarnsins míns, hann er að spila handbolta úti í Magdeburg. Við ætluðum að vera þar öll litla fjölskyldan. En ég vona að þau séu ekki komin með þetta þannig að þau geti farið til hans.“
Samkvæmt heimildum fréttastofu er allur þingflokkur Samfylkingar kominn í sóttkví. Þá er einn þingmaður Pírata einnig í sóttkví - og ljóst að þingflokkur Viðreisnar verður skipaður varaþingmönnum eftir helgi.
„Ég geri mér nú grein fyrir því að það eru sumir andstæðingar okkar sem kætast yfir þessu, að gamla kerlingin sé komin í einangrun, en vitiði til. Það kemur alltaf maður í manns stað,“ segir Þorgerður létt í bragði.
Ekki vongóð um að sleppa
Hanna Katrín Friðriksson þingflokksformaður Viðreisnar segist stálslegin í samtali við fréttastofu. Hún fór í PCR-próf í morgun og bíður eftir niðurstöðu.
„Ég er ekki sérlega vongóð um að sleppa. Í besta falli er ég komin í sóttkví þannig að þetta verður áhugavert nýtt þinglið sem mætir inn í fjárlagaumræðu eftir helgi. En við erum með öfluga varaþingmenn,“ segir Hanna.
Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar greindist með veiruna í gær. Hann segir líðanina góða og hann sé í raun ekkert veikur. Hann dvelur nú í farsóttarhúsi.
„Þetta er náttúrulega bara alveg hundfúlt og það liggur fyrir að maður verður í einangrun um jólin,“ segir Sigmar.

Þá greinir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar frá því á Facebook nú fyrir skömmu að hún hafi greinst með veiruna í gærkvöldi.
„Ég er þríbólusett sem vonandi gerir næstu daga bærilega. Þakklát fyrir það. Það er sérstök tilfinning að fá þessa niðurstöðu en erfiðust finnst mér tilhugsunin um að vera ekki með börnunum mínum um jólin. Við finnum út úr því og höldum bara okkar jól saman ögn seinna í ár,“ segir Þorbjörg á Facebook.
Fréttin hefur verið uppfærð.