Innlent

Skilur gagn­rýni stjórnar­and­stöðunnar vel

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Þrír dagar eru til stefnu fyrir ríkið til að gera athugasemdir við söluna á Mílu.
Þrír dagar eru til stefnu fyrir ríkið til að gera athugasemdir við söluna á Mílu. vísir/vilhelm

Forsætisráðherra segist hafa haft miklar áhyggjur af sölu Símans á fjarskiptainnviðum Mílu til erlenda fjárfestingarfyrirtækisins Ardian. Hún segir gagnrýni stjórnarandstöðunnar á skömmum tíma sem þingið fær til að fjalla um málið réttmæta.

Stjórnar­and­staðan hefur haldið uppi harðri gagn­rýni á við­brögð ríkis­stjórnarinnar við sölunni á Mílu.

Ríkið hefur átta vikur til að gera at­huga­semdir við sölu fjar­skipta­inn­viða til er­lendra aðila en sá frestur rennur út eftir þrjá daga.

Frum­varp vísinda-, iðnaðar- og ný­sköpunar­ráð­herra, sem ætlað er að taka á ýmsum þáttum sem upp hafa komið vegna sölunnar, fór í gegn um fyrstu um­ræðu á þingi í gær og er nú hjá um­hverfis- og sam­göngu­nefnd.

Odd­ný Harðar­dóttir, full­trúi minni­hlutans í Þjóðar­öryggis­ráði lýsti á­hyggjum sínum á þessum knappa tíma í há­degis­fréttum okkar í gær og óttast hún að mis­tök verði gerð við laga­setninguna.

Hefur haft svipaðar áhyggjur

For­sætis­ráð­herra hefur skilning á þeim á­hyggjum:

„Já, já eðli máls sam­kvæmt er það skiljan­leg gagn­rýni því það er stuttur tími fyrir hendi í þinginu,“ segir Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra.

„En ég hélt sér­stakan fund með for­mönnum flokkanna í nóvember til þess að fara yfir þessa stöðu og ráð­herra upp­lýsti svo for­menn flokkanna um inn­tak frum­varps síns núna fyrir helgi. Fyrir utan það að málið hefur auð­vitað verið rætt á vett­vangi þjóðar­öryggis­ráðs þar sem sitja bæði full­trúar meiri­hluta og minni­hluta. En auð­vitað er þetta skammur tími fyrir þing­lega með­ferð.“

Hún segir að hún sjálf og ríkis­stjórnin hafi tekið söluna al­var­lega síðan fréttir af henni bárust.

„Við höfum svo sannar­lega haft á­hyggjur af henni og í rauninni alveg frá því að stjórn­völd voru upp­lýst um að þetta væri raun­hæfur mögu­leiki, sem var í ágúst,“ segir Katrín.

Hún telur að brugðist verði nægi­lega vel við með frum­varpinu og hefur ekki á­hyggjur af því að þær breytingar sem þar verða gerðar hafi á­hrif á sjálf kaup er­lenda fjár­festinga­fé­lagsins.

„Í ljósi þess að Ardian hefur fallist á skil­málana í samningnum þá á ég ekki von á því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×