„Það var ekki einu sinni smá smuga í hausnum á mér að ég gæti mögulega unnið keppnina. Ég bjóst alltaf við því að fara heim, ég bjóst ekki við því að komast inn í keppnina til að byrja með,“ segir Birkir í samtali við fréttastofu.
„Það er pínu súrrealískt fyrir mér að ég sé eftir nokkra daga að fara að syngja í Avicii Arena, í úrslitaþættinum,“ segir Birkir.
Úrslitin verða núna á föstudag þar sem Birkir mun keppa á móti söngkonunni Jacqline Mossberg Mounkassa.
„Ég er svona ágætlega stemmdur, ég er með hálsbólgu núna en við vonum að hún fari bara. Annars er ég bara hress. Spenntur og stressaður á sama tíma, mikið af spennutilfinningum í gangi,“ segir Birkir.
Hann sé þakklátur því að hafa komist alla leið og fái að spila í Avicii tónleikahöllinni, sem margir af helstu tónlistarmönnum heims hafa spilað.
„Fólk sem ég lít upp til, eins og Ed Sheeran og allir þeir, hafa spilað í Arena. Nú fæ ég að gera það.“