Gestir í umræddu jólaboði, sem fór fram fyrir viku, voru á bilinu 100 til 120 talsins og allir fullbólusettir. Þá höfðu allir gengist undir hraðpróf.
Einn gestanna hafði hins vegar nýlega ferðast til Suður-Afríku.
„Allt var gert lögum samkvæmt og engar reglur voru brotnar,“ hefur AFP eftir fulltrúa heilbrigðisyfirvalda.
Í Þýskalandi er meira en eitt prósent þjóðarinnar nú með kórónuveiruna, að sögn heilbrigðisráðherra landsins. 74.352 greindust með veiruna á síðasta sólahring og 390 létust.
Ráðherrann, Jens Spahn, segir hlutfall óbólusettra sem eru alvarlega veikir af völdum Covid-19 hlutfallslega mun hærra en hlutfall bólusettra sem eru alvarlega veikir.
„Ef allir fullorðnir Þjóðverjar væru bólusettir værum við ekki í þessari erfiðu stöðu,“ sagði hann við blaðamenn í Berlín í dag.
Spahn lætur af störfum þegar ný ríkisstjórn tekur við í næstu viku en hún hyggst leggja fram frumvarp um bólusetningarskyldu. Spahn er yfirlýstur andstæðingur skyldubólsetninga og hefur gefið út að hann muni greiða atkvæði gegn frumvarpinu.