Samkvæmt lífskjarasamningunum frá árinu 2019 á launafólk að njóta aukins hagvaxtar milli áranna 2020 og 2021 með svo kölluðum hagvaxtarauka sem leggist ofan á taxta og mánaðarlaun í maí á næsta ári. Greiðslurnar geta verið allt frá 2.250 krónum upp í 13 þúsund krónur. Þær greiðslur kæmu til viðbótar almennum launahækkunum um áramótin.
Forystufólk í verkalýðshreyfingunni hefur mótmælt vaxtahækkunum Seðlabankans undanfarið sem hækkaði meginvexti sína í fjórða skiptið á þessu ári í gær og þá um 0,5 prósentur. Drífa Snædal forseti Alþýðusambandsins og Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR hafa sagt að aukin útgjöld heimilanna vegna hækkunar vaxta verði sótt í næstu kjarasamningum sem þegar er byrjað að undirbúa.

Þar má því reikna með að mætist stálin stinn því Samtök atvinnulífsins hafa haldið því fram allt frá því kórónuveirufaraldurinn skall á með tilheyrandi falli havaxtar í fyrra að ekki væri innistæða fyrir öllum þeim launahækkunum sem samið var um í lífskjarasamningunum.
Heimir Már Pétursson fréttamaður fær Drífu og Halldór Benjamín í beina útsendingu í Pallborðinu á Vísi og Stöð 2/Vísi klukkan 14:00 í dag. Reikna má með að þau takist á um þær launahækkanir sem eiga eftir að koma til framkvæmda á samningstímanum og hagvaxtaraukan sem koma á til framkvæmda næsta vor.