„Sem atvinnurekandi þá er mér enn og aftur gert að bregðast við með engum fyrirvara. 50 manna takmarkanir taka gildi á miðnætti. Gildir í 3 vikur. Tekjufall blasir við og framundan er Desemberuppbót starfsmanna. Umfram útgjöld sem leggjast þungt á lítil og meðalstór fyrirtæki sem hafa verið að berjast í bökkum síðustu 20 mánuði,“ segir Sigmar, sem gegnir nafninu Simmi Vill, í Facebook-færslu. Þetta eru viðbrögð hans við nýjum aðgerðum í sóttvörnum sem kynntar voru nú í hádeginu.
Simmi stóð meðal annarra nýverið fyrir stofnun nýju félagi atvinnurekenda – Atvinnufjelagið –sem einkum lætur sig varða hagsmuni lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þetta er klofningsfélag úr Samtökum atvinnulífsins (SA) en Simmi segir að í SA ráði stærri fyrirtæki alfarið för. Hann segir að efnahagsúrræðin sem nú eru í gildi séu frá því í mars 2020. Bráðum tveggja ára gömul.
„Núna skora ég á Bjarna Benediktsson opinberlega að leggjast yfir það með sínu fólki hvernig hægt er að mæta að fyrrabragði og bæta þann skaða sem þessar ákvarðanir eru að valda fyrirtækjum í landinu eina ferðina enn,“
segir Simmi og „taggar“ fjármálaráðherra í færslu sinni. Hann fullyrðir að Bjarni hafi viðurkennt opinberlega að hið opinbera sé skaðabótaskylt að einhverju marki með þessum aðgerðum. Um það eigi því ekki að þurfa að deila.
„En núna er ekki tíminn til að bíða eftir málsóknum, heldur að koma að fyrrabragði með lausnir,“ segir Simmi og hvetur til samstöðu.