Kortið var uppfært í morgun og tekur mið af tölum sem sendar eru inn á þriðjudögum. Það sem færir Ísland úr appelsínugulum yfir í rauðan lit í þetta skiptið er að hér er fjórtán daga nýgengi smitaðra á hverja 100 þúsund íbúa er komið yfir 200. Eins og er stendur það í 241,3.
Ísland var síðast rautt í september en hefur verið appelsínugult frá og með 16. september síðastliðnum. Síðast þegar Ísland varð rautt, í ágúst, sögðu talsmenn ferðaþjónustunnar hér á landi að líklega myndi rauði liturinn þá ekki hafa eins sterk áhrif og áður.
Faraldurinn hefur verið á nokkurri siglingu hér á landi og hafa tugir greinst smitaðir af Covid-19 á hverjum degi, undanfarna daga.
Sóttvarnarstofnun Evrópu mælist til þess að Evrópusambandsríkin taki mið af kortinu til þess að beita sambærilegum takmörkunun á landamærum sínum.
Utanríkisráðuneyti Íslands hefur þó vakið athygli á því áður þegar Ísland hefur orðið rautt á kortinu, að það þýði ekki endilega að Ísland sé þar með sjálfkrafa komið á rauðan lista einstakra ríkja eða að reglur gagnvart Íslandi breytist strax.
Þá hefur það einnig bent á að víða séu í gildi undanþágur fyrir bólusetta en ráðuneytið heldur úti ferðaráðs-síðu þar sem finna má upplýsingar um gildandi takmarkanir á helstu áfangastöðum Íslendinga.
Icelandair heldur einnig úti síðu þar sem nálgast má upplýsingar um ferðatakmarkanir og sóttvarnarráðstafanir á áfangastöðum flugfélagsins.