Ný lög taka gildi um mánaðamótin sem kveða á um að Pósturinn þurfi ekki lengur að vera með sömu verðskrá fyrir allt landið og að gjald fyrir sendingar eigi að endurspegla raunkostnað. Útfærsla þessa markmiðs fól í sér að ríkissjóður niðurgreiddi hluta sendingarkostnaðar fyrir viðskiptavini á strjálbýlli svæðum til móts við sendanda.
Það er, að ríkið hætti að niðurgreiða póstsendingar á landsbyggðinni.
Í tilkynningu frá Póstinum í dag sagði að verð á fjölpósti og sendingum á pökkum 0-19 kg að þyngd muni taka breytingum um mánaðamótin.
Sjá einnig: Verðið hjá Póstinum hækkar á landsbyggðinni
Flest verð Póstsins á höfuðborgarsvæðinu munu einnig hækka um mánaðamótin en þó ekki jafn mikið og á landsbyggðinni.
Sé núverandi verðskrá borin saman við þá sem tekur gildi um mánaðarmótin sést að pakkaflokkum er fækkað og sendingar hækka í verð um land allt. Líka á höfuðborgarsvæðinu.
Einu liðir verðskrárinnar á höfuðborgarsvæðinu sem lækka eru heimsendingar níu og tíu kílóa pakka og sendingar á pósthús. Þeir liðir lækka um eitt og fjögur prósent.
Heimsending eins kílóa pakka á höfuðborgarsvæðinu hækkar um fimmtán prósent. Mesta hækkunin nemur 35 prósentum.
Dropp hefur verið starfrækt í tæp tvö ár og er í samkeppni við Póstinn. Hrólfur segir Póstinn vera með hátt verð og veita stórum kúnnum afslætti. Það komi hins vegar niður á smærri fyrirtækjum og aðilum.
„Það er jákvætt fyrir okkur og einkaaðila að Pósturinn er ekki lengur að niðurgreiða á landsbyggðinni. Enda ákvað Alþingi að hætta með það,“ segir Hrólfur. Hann segir það þó koma þeim sem nota þjónustuna á óvart að verðið sé að hækka svona mikið.