Innlent

Ekki talin ástæða til rýminga á Seyðisfirði

Eiður Þór Árnason skrifar
Hér sést það svæði í hlíðinni sem er á hreyfingu. Ljósmyndin er tekin í desember 2020.
Hér sést það svæði í hlíðinni sem er á hreyfingu. Ljósmyndin er tekin í desember 2020. Ríkislögreglustjóri/Veðurstofan

Ekki er talin ástæða til að rýma hús á Seyðisfirði vegna mikillar úrkomu á Austurlandi. Fulltrúar Veðurstofunnar, almannavarna og Múlaþings funduðu í dag vegna úrkomuspár á Austurlandi.

Samkvæmt henni má búast við úrkomu á Austfjörðum næstu tvo sólarhringa og gefin hefur verið út úrkomu- og skriðuviðvörun á sunnanverðum Austfjörðum.

Vindaspá gerir ráð fyrir suðaustan- og austanátt með 8 til 12 metrum á sekúndu. Þessi vindátt skapar úrkomuskugga á Seyðisfirði þar sem fjallgarðurinn skýlir svæði fyrir úrkomu. Vegna þessa er því ekki talin ástæða til rýmingar húsa.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum. Hryggurinn milli skriðusársins og Búðarár er enn á hreyfingu þó hægt hafi á henni. Einn spegill sýnir að stykkið sem hann stendur á hafi hrokkið til um 15 til 20 millmetra í gærkvöldi en sú hreyfing hefur ekki náð til annarra spegla á svæðinu.

Allar líkur á að efnið muni ekki valda tjóni á mannvirkjum

Úrkoma næstu daga kann að verða til þess að einhver hluti hryggsins fari af stað. Sem fyrr er ekki gert ráð fyrir að hann fari allur í einu sökum þess hversu sprunginn hann er og gliðnaður. Útreikningar sýna að allar líkur eru á að varnargarðar og safnþró leiði efnið til sjávar og án þess að valda tjóni á mannvirkjum, jafnvel þó hryggurinn fari allur í einu.

Vel er fylgst með mælum í hlíðum ofan Seyðisfjarðar að sögn almannavarna og viðeigandi ráðstafanir gerðar þyki ástæða til. Engar hreyfingar hafa mælst í hlíðum ofan Seyðisfjarðar utan þeirrar er mælst hefur í hryggnum.

Áfram verður aðgæsla vegna umferðar á göngustígum meðfram Búðará og annars staðar þar sem varnargarðar beina skriðustraumum. Enn er í gildi óvissustig almannavarna á Seyðisfirði.


Tengdar fréttir

Björgunar­sveitar­fólk á tánum vegna hvellsins í kvöld

Gular viðvaranir taka gildi síðar í dag á suðurströndinni og á Vestfjörðum en búast má við nokkrum hvelli í kvöld. Björgunarsveitir eru í viðbragðsstöðu og segir upplýsingafulltrúi Landsbjargar að þau séu komin í veturgírinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×