Aþena UMFK er á sínu fyrsta tímabili í deildinni og spilar heimaleiki sína á Akranesi. Félagið er hugarfóstur körfuboltaþjálfarans Brynjars Karls Sigurðssonar og er hann þjálfari liðsins.
Körfuknattleiksfélagið Aþena leikur undir hatti Ungmennafélags Kjalnesinga. Aþena varð til árið 2019 eftir að Brynjar Karl og stelpur sem hann hafði þjálfað hættu hjá ÍR. Sumar stelpnanna þjálfaði Brynjar Karl áður hjá Stjörnunni en um þau var fjallað í heimildamyndinni Hækkum rána.
Rise with Athena. pic.twitter.com/cliCwlWUtF
— Athena Basketball (@AthenaBasket) September 30, 2021
Aþena UMFK hefur spilað tvo leiki á tímabilinu, vann Vestra 79-49, en tapaði á móti Ármanni, 50-87.
Stigahæsti og frákastahæsti leikmaður liðsins er hin 24 ára gamla Violet Morrow frá Bandaríkjunum með 24,0 stig og 13,0 fráköst í leik en hin fjórtán ára gamla Tanja Ósk Brynjarsdóttir er stoðsendingahæst með 4,0 slíkar í leik.
Þórsliðið mætir öflugt til leiks og hefur unnið tvo fyrstu leiki sína, fyrst 78-68 sigur á Ármanni og svo 79-67 sigur á Snæfelli. Hrefna Ottósdóttir er þeirra öflugust í byrjun móts með 20,5 stig og 9,5 fráköst í leik.
Leikurinn í kvöld hefst klukkan 18.00 og er sýndur beint á Stöð 2 Sport.