Jónsi og systur hans, Lilja, Ingibjörg og Sigurrós, stofnuðu Fischersund saman árið 2017. 66°Norður og Fischersund sameinuðu krafta sína og sköpuðu ilmheim innblásinn af íslenskri útilykt. Ilmurinn var „frumsýndur“ á HönnunarMars í ár.

Rolling Stone fjallar um þetta þverfaglega hönnunarverkefni þar sem markmiðið var að búa til ilm fyrir 66°Norður og ákveðinn upplifunarheim í kringum ilminn, en hluti af verkefninu er einnig tónverk sem unnið er af Jónsa, Sindra og Kjartani Holm.
Ilmurinn Útilykt er handgerður hér á Ísland og unnið úr íslenskum handtíndum lækningajurtum og jurtaolíum sem gerir þetta að hreinni ilmvöru lausa við öll óæskileg aukaefni. Innblásturinn er sóttur í íslenska náttúru og íslenska útilykt en vindurinn, sjórinn, snjórinn, nýslegið gras og útivera lék stærstan þátt í innblæstrinum þegar hönnunarteymi 66°Norður og Fischersunds unnu að því að þróa lyktina.
