Þá hefur nefndin einnig tekið fyrir kærur fimm umhverfissamtaka á leyfisveitingar annarra sveitarfélaga á línuleiðinni, það er Grindavík, Hafnarfjörð og Reykjanesbæ.
Bæjarfélögin höfðu öll samþykkt framkvæmdaleyfin og úrskurðaði nefndin að öll leyfin skyldu standa, nema hjá Hafnarfirði.
Þetta þýðir að Hafnarfjarðarbær og Vogar þurfa nú að taka umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi til afgreiðslu að nýju.

Vogar vilja línuna í jörð en Landsnet loftlínu
Vogar hafa talað fyrir að Landsnet leggi línuna í jörðu eins og Skipulagsstofnun hefur mælt með í umhverfismati sínu en Landsnet hyggst hins vegar leggja loftlínu, sem er mun ódýrari framkvæmd.
Í tilkynningu frá Landsneti er haft eftir Guðmundi Inga Ásmundssyni, forstjóra Landsnets að fyrirtækið hafi talið mikilvægt að kæra ákvörðun Sveitarfélagsins Voga um að hafna umsókn um framkvæmdaleyfi til úrskurðarnefndarinnar þar sem úrskurðarnefndin hafi þá þegar til afgreiðslu kærur náttúruverndarsamtaka á framkvæmdaleyfum Grindavíkur, Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar.
„Nú liggur fyrir niðurstaða úrskurðarnefndarinnar og er ákvörðun Voga um að hafna framkvæmdaleyfinu ógild og að Hafnarfjörður þarf að setja málið aftur á dagskrá. Málið er því aftur komið inn á borð Voga og Hafnarfjarðarbæjar. Við vonumst til hægt verði að afgreiða málin sem fyrst þannig að hægt verði að hefjast handa við byggingu Suðurnesjalínu 2,“ er haft eftir Guðmundi Inga.
Þörf á annarri línu
Náttúruverndarsamtökin fimm sem kærðu leyfisveitingarnar eru Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, Ungir umhverfissinnar og Hraunavinir.
Suðurnesjalína 1 er nú eina línan sem skaffar Suðurnesjunum raforku en flestir sem koma að málinu, sveitarfélög, ráðherrar og Skipulagsstofnun virðast sammála um að þörf sé á annarri línu til að tryggja raforkuöryggi á Suðurnesjum.