„Sturlun dagsins náði hápunkti þegar formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi viðurkenndi að hafa brotið lög með því að innsigla ekki kjörseðla. Nei, hann sér ekki ástæðu til að fylgja mjög skýru ákvæði laga um innsigli því hann, krakkar mínir, notar venjulegan lás. Hann sem sagt læsir herberginu sem seðlarnir eru í, það er hans leið. Þegar hann er spurður hvers vegna hann brjóti lögin ber hann, löglærður maðurinn, fyrir sig „hefð“. Hversu íslenskt?“ spyr Katrín.
Fjölmargir hafa lýst sig dolfallna vegna frétta sem bárust í gærkvöldi af vanköntum á talningu, endurtalningu í kjölfarið en niðurstaða hennar leiddi svo til nokkurrar uppstokkunar á þingmannaliðinu. Formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi er Ingi Tryggvason en spjót beinast nú að honum.
Hart tekið á vanköntum á kosningu til stjórnlagaþings
Ekki eru það síst Katrín, sem eins og aðrir þeir sem sátu í stjórnlagaþingi og máttu horfa upp á Hæstarétt ógilda kosningu til þess en dómarar mátu sem um verulega ágalla í framkvæmd hefði verið að ræða, sem nú furða sig á því að fúsk við kosningar til sjálfs löggjafaþings skuli líðast. Við þær kosningar lék enginn grunur um að röng niðurstaða hefði fengist í kosningunum. Þar voru nokkur tæknileg atriði lögð saman sem þóttu duga til ógildingar á kosningu í heild, þó hvert um sig hefði ekki dugað til ógildingar. Þetta hljóti að teljast fordæmi.
Katrín rekur málið í pistli sínum og spyr til dæmis hverjir aðrir en formaður yfirstjórnar hafi haft lykil að herberginu þar sem óinnsiglaðir kjörkassar voru? Eða hversu margir í Borgarnesi kunni að dýrka upp lása?
Traust á kosningum horfið
„Getum við svo líka rætt það að þessi maður hafi lýst því yfir fyrirfram þegar HANN EINN (!) tók ákvörðun um þessa endurtalningu að það væru líkur á því að hún myndi leiða til breytinga,“ spyr Katrín jafnframt standi hlessa og vitnar til fréttar Vísis þar sem segir:
„Yfirmaður kjörstjórnar þar segir að við endurtalninguna gætu orðið hreyfingar á jöfnunarsætum flokka”.
Katrín bendir á að þetta hafi vel að merkja verið sama frétt og Píratar lásu og fengu þannig upplýsingar um „einvalds-endurtalninguna“ án þess að þeir hefðu fengið að senda umboðsmann til að vera viðstaddur eins og lög gera ráð fyrir.
„Ekki bara voru tölur rangar í kjördæminu heldur fjölgaði atkvæðum um tvö í þessari seinni talningu! Án alls hroka spyr ég: hversu flókið verkefni er það að telja?“

Og Katrín heldur áfram: „Ég ætla bara að koma hér út úr skápnum og segja að þessi framganga sviptir mig raunverulega trausti á niðurstöðum þessara kosninga. Hvað vitum við hvort það séu sambærilegar „hefðir“ annars staðar á landinu?“
Innsigli á kjörkössum ítrekað rofin
Þá greinir Katrín frá samtali hennar við Jón Þór Ólafsson fyrrverandi þingmann sem hefur kynnt sér kosningaeftirlit í þaula hafi komist að því að þetta væri ekki eina dæmið um að lög um kosningar til Alþingis hafi verið brotin í þessum kosningum.
„Bæði í Reykjavík og Kópavogi voru innsigli rofin á utankjörfundaatkvæðum mörgum dögum fyrir kjörfund og þau geymd í einhverjum herbergjum. Innsigli á þeim herbergjum voru rofin áður en eftirlitsmaður kom aftur í hús. Kannski finnst sumum svona fúsk léttvægt, því almennir borgarar eru almennt heiðarlegir og allir svo næs á því á Íslandi. Slík afstaða er í senn heimskuleg og hættuleg.“