Meng Wanzhou, fjármálastjóri Hueawei og dóttir stofnanda fyrirtækisins, hefur verið í haldi í Kanada frá því að hún var handtekin þar árið 2018, að beiðni bandarískra stjórnvalda. Málið vakti mikla athygli og hafði gríðarleg áhrif á þegar stirð samskipti stjórnvalda í Kína og Washington. New York Times greinir frá.
Í byrjun árs 2019 lagði bandaríska dómsmálaráðuneytið fram þrettán ákærur á hendur kínverska samskiptafyrirtækinu og Meng, sem er æðsti fjárreiðumaður þess. Meðal þess sem ákærurnar sneru að eru fjársvik, þjófnaður á tækni í eigu bandaríska fyrirtækisins T-Mobile og hindrun framgangs réttvísinnar.
Meng mætti, í gegn um fjarfund, fyrir alríkisdómstól í Brooklyn í Bandaríkjunum í dag þar sem samningaviðræður fóru fram. Samkvæmt samkomulaginu munu alríkissaksóknarar láta ákærur niður falla gegn því að hún viðurkenni sök.
Saksóknarar sögðu fyrir dómi í dag að samkvæmt samkomulaginu muni dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna draga til baka beiðni til kanadískra stjórnvalda að Meng verði framseld til Bandaríkjanna. Það muni flýta fyrir lausn hennar, gefið að hún standi við sinn hluta samkomulagsins. Ákærur gegn henni verði felldar niður 1. desember 2022.